Erlent

Fjarlægðu 7,4 kílóa nýra úr manni

Atli Ísleifsson skrifar
Læknarnir í Nýju-Delí með nýrað.
Læknarnir í Nýju-Delí með nýrað. Getty
Skurðlæknar á Indlandi fjarlægðu á dögunum nýra úr manni þar sem nýrað mældist heil 7,4 kíló.

Nýrað var skorið úr 56 ára gömlum manni sem glímdi við lífshættulegan nýrnasjúkdóm sem gerði það að verkum að annað nýrað blés út með þessum hætti. Fylltust belgir á nýranu af vökva og var ákveðið að skera manninn upp eftir að upp komst um innvortis blæðingar.

Í frétt Guardian er haft eftir læknum að nýrað hafi fyllt upp í hálfan kvið mannsins. „Við vissum að þetta var stórt nýra en grunaði ekki að það væri svona þungt,“ segir Sachin Kathuria, einn skurðlæknanna.

Aðgerðin tók um tvo tíma og var framkvæmd á Sir Ganga Ram sjúkrahúsinu í höfuðborginni Nýju-Delí í síðasta mánuði. Kathuria segir sjúklinginn vera á góðum batavegi.

Venjulegt nýra er milli 120 og 150 grömm og um 12 sentimetrar að lengd, en nýrað í manninum mældist 45 sentimetrar.

Í Heimsmetabók Guinness segir að stærsta nýrað, sem hafi verið fjarlægt úr manni, hafi verið 4,25 kíló og fjarlægt eftir skurðaðgerð í Dúbaí árið 2017. Læknarnir í Delí segja þó að gögn séu til um að níu kílóa nýra hafi áður verið skorið úr manni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×