Sport

Missti Ólympíugullið sitt sjö árum eftir að hann fékk það um hálsinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Artur Taymazov vann þrjú Ólympíugull á ferlinum er nú búinn að missa tvö þeirra.
Artur Taymazov vann þrjú Ólympíugull á ferlinum er nú búinn að missa tvö þeirra. Getty/Paul Gilham
Nýja tæknin í lyfjaprófum er búin að taka tvö Ólympíugull af Artur Taymazov en hann á samt eitt eftir sem verður aldrei tekið af Úsbekanum.

24 verðlaunahafar á Ólympíuleikunum í London fyrir sjö árum hafa misst verðlaun sín eftir að upp komst um ólöglega lyfjanotkun þeirra. Sá nýjasti er glímukappinn Artur Taymazov frá Úsbekistan.

Glímukappinn Artur Taymazov er sextugasti óheiðarlegi íþróttamaðurinn frá ÓL í London 2012 og áttundi verðlaunahafinn sem er dæmdur úr keppni fyrir að nota ólögleg lyf.





Fyrir þremur árum missti Taymazov Ólympíugullið sitt frá því í Peking 2008 og nú er hann einnig búinn að missa Ólympíugullið sitt frá London 2012.

Taymazov er nú pólitíkus í Rússlandi. Hann á líka eitt Ólympíugull eftir því hann vann einnig Ólympíugull á leikunum í Aþenu árið 2004. Það gull verður ekki tekið af honum.

Það voru „bara“ níu sem féllu á lyfjaprófi fyrir og meðan Ólympíuleikunum stóð í London árið 2012 en með betri tækjakosti og meiri þekkingu hafa nú 24 verðlaunahafar misst verðlaun vegna óhreinna sýna.

Næsta sumar renna út tímamörkin sem lyfjaeftirlit Alþjóða Ólympíusambandsins hefur til að fara yfir sýnin sín frá leikunum í London. Það mega ekki hafa liðið meira en átta ár frá leikunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×