Enski boltinn

Hudson-Odoi tilbúinn að byrja deildarleik fyrir Chelsea

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hudson-Odoi kannast orðið vel við varamannavestin
Hudson-Odoi kannast orðið vel við varamannavestin vísir/getty
Maurizio Sarri segir Callum Hudson-Odoi vera tilbúinn til þess að byrja leik í ensku úrvalsdeildinni en ver ákvörðun sína að hafa ekki byrjað að spila honum fyrr.

Hudson-Odoi spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir England í síðustu viku þegar hann kom inn á gegn Tékkum í undankeppni EM 2020 og byrjaði svo sinn fyrsta leik gegn Svartfjallalandi nokkrum dögum seinna.

Hann hefur hins vegar aðeins spilað 119 mínútur af úrvalsdeildarfótbolta í sex leikjum þar sem hann kom inn sem varamaður.

Margir stuðningsmenn Chelsea vilja sjá Sarri spila ungstirninu meira en Ítalinn segir það tilviljun að hann hafi ekki byrjað úrvalsdeildarleik.

„Ég hef mikla trú á honum. Hann hefur byrjað marga leiki, þeir eru ekki í úrvalsdeildinni en það er bara tilviljun. Það er ekkert vandamál að setja hann í byrjunarliðið í úrvalsdeildinni, hann er tilbúinn,“ sagði Sarri.

Hudson-Odoi hefur byrjað sjö leiki fyrir Chelsea á tímabilinu í Evrópudeildinni, bikar eða deildarbikar. Samtals hefur hann komið við sögu í 19 leikjum.

„En ég get bara spilað með tvo kantmenn og við erum með Eden Hazard, Willian og Pedro í hópnum, svo það er ekki einfalt að byrja hvern leik.“

„Líklega, í náinni framtíð, mun hann byrja um 80 prósent leikjanna.“

Næsti leikur Chelsea er gegn Cardiff á morgun, sunnudag. Chelsea má ekki við því að misstíga sig þar í baráttunni um fjórða sæti deildarinnar, en eins og er situr Chelsea í 6. sæti, þremur stigum á eftir Arsenal í fjórða sætinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×