Enski boltinn

Solskjær vildi gera eins og Pep

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ole Gunnar Solskjær er kominn með draumastarfið
Ole Gunnar Solskjær er kominn með draumastarfið vísir/getty
Ole Gunnar Solskjær var í vikunni ráðinn knattspyrnustjóri Manchester United næstu árin eftir góðan árangur sem bráðabirgðastjóri félagsins. Hann vildi þó fara aðra leið inn í starfið.

Solskjær sagði draum vera að rætast þegar hann skrifaði undir langtímasamning við United en játaði þó að hann hefði séð leiðina í stjórastólinn öðruvísi fyrir sér.

„Eins barnalegt og það er þá trúði ég því alltaf og dreymdi um að ég myndi vera knattspyrnustjóri hér á Old Trafford,“ sagði Solskjær.

„Ég hugsaði ekki um þetta sem leikmaður þar til ég meiddist illa, þá hafði ég þrjú ár þar sem ég fór að hugsa að ég þyrfti að verða þjálfari.“

„Síðasta tímabilið mitt þá fór ég að vinna með varaliðinu og ég hugsaði með mér að mér líkaði mjög vel við þetta umhverfi. Þegar ég sá hvað Guardiola gerði hjá Barcelona, hvernig hann fór frá varaliðinu í aðalliðið, hugsaði ég hvort ég gæti gert það sama.“

„Það gerðist hins vegar ekki og ég gaf eiginlega drauminn upp á bátinn þegar þetta fór eins og það gerði hjá Cardiff. Svo er ég allt í einu kominn hingað.“

Fyrsti leikur Solskjær eftir að hann var fastráðinn er gegn Watford klukkan 15:00 í dag, laugardag, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×