Í formála 44 síðna greinargerðar er vísað til þess að Jarðfræðistofnun Bandaríkjanna hafi árið 2007 áætlað að einhverjar mestu óuppgötvuðu olíulindir jarðar væru á Grænlandi og metið þær yfir 30 milljarða tunna af olíu.
Rifjað er upp að olíuleit hafi verið stunduð á Grænlandi frá árunum upp úr 1970. Til þessa hafa sex holur verið boraðar á landgrunni Grænlands en þær hafa aðeins skilað örlitlum votti af olíu.
Fram kemur að tuttugu leitarleyfi hafi verið í gildi á tímabilinu 2014-2018 en þeim hafi öllum verið skilað inn. Síðan þá hafi borist fjórar umsóknir, sem veki bjartsýni.

Minnt er á að í Noregi hafi 33 holur verið boraðar án árangurs á sjöunda áratugnum þar til olía fannst loksins í vinnanlegu magni á Ekofisk-svæðinu í Norðursjó árið 1969.
„Enginn vafi leikur á því kolvetnissvæði gætu stuðlað að því að Grænland verði efnahagslega sjálfbært, ef Grænlandi tekst að verða olíuframleiðsluland,“ segir í rökstuðningi grænlensku landsstjórnarinnar.

Grænland, eins og iðnríki og olíuframleiðslulönd, á rétt á að mæta þessari eftirspurn. Þetta breytir ekki því að landsstjórn Grænlands, Naalakkersuisut, leggur á sama tíma mikla áherslu á mikilvægi sjálfbærrar þróunar og annarra orkugjafa,“ segir ennfremur.
„Þróunin á Grænlandi verður auðvitað að vera sjálfbær. Þetta verður að gera með virðingu fyrir umhverfi okkar og náttúru. En ef við höldum áfram að uppfylla ströngustu staðla á svæðinu, þá verður einnig hægt að samræma markmið um sjálfbæra þróun - bæði staðbundið og á heimsvísu – því að olíu- og gasvinnsla þróist á Grænlandi,“ segir í greinargerð um olíustefnu Grænlands.