Vardar mætir Veszprem í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handbolta eftir hreint ótrúlega endurkomu í undanúrslitunum gegn Barcelona.
Barcelona var miklu sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og var 16-9 yfir þegar flautað var til hálfleiksins. Makedónska liðið saxaði jafnt og þétt á forskotið í síðari hálfleik en Barcelona var þó enn með leikinn nokkuð þægilega í höndum sér þegar um korter var eftir af leiknum.
Þeim spænsku gekk þó ekkert að stoppa áhlaup Vardar og á 57. mínútu jafnaði Vardar leikinn í 26-26. Thiagus Dos Santos fékk rautt spjald í liði Barcelona á 59. mínútu og það átti eftir að reynast þeim dýrt.
Vardar nýtti sér liðsmuninn, komst yfir og vann leikinn 29-27. Vardar spilar því til úrslita og mætir Veszprem á meðan Barcelona mætir Kielce í leiknum um þriðja sætið.
Aron Pálmarsson skoraði eitt mark í fjórum tilraunum í leiknum.

