Erlent

Leita átta fjallgöngumanna í Himalayafjöllum

Sylvía Hall skrifar
Nanda Devi er næst hæsti tindur Indlands.
Nanda Devi er næst hæsti tindur Indlands. Vísir/Getty
Leit fer nú fram að átta fjallgöngumönnum sem hygðust ná að toppi Nanda Devi, næst hæsta fjalls Indlands. Leit hófst eftir að hópurinn skilaði sér ekki í grunnbúðir á tilsettum tíma en hópurinn lagði af stað í gönguna þann 13. maí. BBC greinir frá.

Leitarteymi hefur nú verið sent af stað en aðstæður á fjallinu eru ekki góðar þessa stundina. Mikil rigning og snjóflóðahætta gerir leitarmönnum erfitt fyrir en vonir standa til þess að þyrla indverska flughersins geti aðstoðað við leitina.

Hópurinn sem leitað er að samanstendur af fjallgöngumönnum frá Ástralíu, Bandaríkjunum, Bretlandi og Indlandi og nutu þau aðstoðar leiðsögumannsins Martin Moran frá Bretlandi. Hann er vanur fjallgöngumaður og hefur margsinnis farið í leiðangra á svæðinu.

Utanríkisráðuneyti Bretlands hefur sett sig í samband við yfirvöld í Indlandi og boðið fram aðstoð sína. Ráðuneytið segist vera reiðubúið til þess að gera allt sem í valdi sínu stendur til þess að aðstoða við leitina.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×