Sjö þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa að nýju lagt fram frumvarp um refsingar við tálmun eða takmörkun á umgengni. Frumvarpið er farið í gegnum fyrstu atkvæðagreiðslu og komið til velferðarnefndar. Frumvarpið hefur áður verið lagt fram og vakið hörð viðbrögð.
Samkvæmt því það varðað allt að fimm ára fangelsi að tálma umgengni foreldris eða þess sem hefur umgengisrétt við barn.
Framkvæmdastjór Mannréttindaskrifstofu Íslands mælir eindregið gegn samþykkt.
„Við teljum í fyrsta lagi að það geti varla verið barninu fyrir bestu ef annað foreldri er dæmt í allt að fimm ára fangelsi, fyrir ítrekuð brot þá, af því þá fengi barnið ekki að hitta það foreldri nema endrum og sinnum," segir Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Margrét segir lágmark að hugtakið tálmun verði skilgreint áður en lengra sé haldið. Fólk leggi mjög misjafnan skilning í það.
„Ég veit til þess að það hefur verið óskað dagsekta vegna tálmunar í tilviki þegar barn kaus að fara í skólaferðalag þá helgi þegar það átti að vera hjá hinu foreldrinu. Ég veit líka um annað tilvik þar sem óskað var dagsekta þegar barnið hitti foreldrið nánast daglega en vildi ekki gista á heimilinu," segir Margrét.
Af sinni reynslu sé tálmun oftast síðasta úrræði foreldris. Undanþáguheimild þyrfti að vera til staðar.
„Í þeim tilvikum sem við þekkjum til hefur foreldri tekið fyrir umgengni vegna ótta við að barnið verði fyrir ofbeldi eða þá að hitt foreldrð sé í vímuefnaneyslu eða eigi við andleg veikindi að stríða," segir Margrét.