Fótbolti

Hjörtur og félagar upp í 3. sætið eftir endurkomusigur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hjörtur og félagar eru ósigraðir í dönsku úrvalsdeildinni.
Hjörtur og félagar eru ósigraðir í dönsku úrvalsdeildinni. vísir/getty
Hjörtur Hermannsson lék allan leikinn þegar Brøndby vann 3-2 sigur á OB í dönsku úrvalsdeildinni í dag.

Brøndby lenti 1-2 undir um miðbik seinni hálfleiks en pólski framherjinn Kamil Wilczek tryggði liðinu sigur með tveimur mörkum undir lokin. Með sigrinum komst Brøndby upp í 3. sæti deildarinnar. Liðið hefur unnið tvo af fyrstu þremur leikjum sínum á tímabilinu og gert eitt jafntefli.

Guðmundur Þórarinsson var í byrjunarliði Norrköping og lék allan leikinn þegar liðið gerði markalaust jafntefli við IFK Göteborg á útivelli. Norrköping er í 7. sæti deildarinnar með 28 stig eftir 18 leiki.

Í sænsku kvennadeildinni tapaði Djurgården fyrir Eskilstuna United, 0-3. Ingibjörg Sigurðardóttir og Guðrún Arnardóttir léku allan tímann í vörn Djurgården. Guðbjörg Gunnarsdóttir leikur ekki með liðinu næstu mánuðina þar sem hún er barnshafandi. Djurgården er í 9. sæti deildarinnar með níu stig, fimm stigum frá fallsæti.

Ålesund vann sinn þriðja leik í röð í norsku B-deildinni þegar liðið bar sigurorð af Nest-Sotra, 2-0, á heimavelli. Daníel Leó Grétarsson, Davíð Kristján Ólafsson og Aron Elís Þrándarson léku allan leikinn fyrir Ålesund sem er með fimm stiga forskot á toppi deildarinnar.

Viðar Ari Jónsson lék allan leikinn fyrir Sandefjord sem laut í lægra haldi fyrir Ham-Kam, 1-0, á útivelli. Sandefjord er í 2. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×