Körfubolti

Titilvörnin hefst gegn Grindavík

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
KR hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn sex ár í röð.
KR hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn sex ár í röð. vísir/daníel þór
Íslandsmeistarar KR mæta Grindavík í 1. umferð Domino's deildar karla. Fyrstu drög að leikjaniðurröðun voru send félögunum í Domino's deild karla og 1. deild karla í dag. Þau hafa frest til 8. júlí til að koma að sínum athugasemdum og beiðnum. Einhverjar færslur á milli leikdaga verða því vegna þessa sem og sjónvarpsleikja.

KR-ingar hafa orðið Íslandsmeistarar sex ár í röð og bætt við sig sterkum leikmönnum eftir að síðasta tímabili lauk. Þeir eru því áfram líklegir til afreka.

Bikar- og deildarmeistarar Stjörnunnar sækja Þór Þ. heim. Bæði lið féllu úr leik í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn á síðasta tímabili.

ÍR, silfurlið síðasta tímabils, fær Njarðvík í heimsókn í 1. umferðinni. Liðin mættust í 8-liða úrslitum á síðasta tímabili þar sem ÍR-ingar unnu 3-2, þrátt fyrir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjunum í einvíginu.

Tindastóll og Keflavík eigast við fyrir norðan. Bæði lið eru með nýjan þjálfara. Baldur Þór Ragnarsson tók við Stólunum af Israel Martin og Hjalti Þór Vilhjálmsson við Keflvíkingum af Sverri Þór Sverrissyni.

Nýliðar Þórs Ak. og Fjölnis mæta Haukum og Val í 1. umferðinni. Þórsarar, sem unnu 1. deildina á síðasta tímabili, sækja Hauka heim á meðan Fjölnismenn fá Valsmenn í heimsókn.

Keppni í Domino's deildar karla hefst fimmtudaginn 3. október. Önnur umferðin hefst viku síðar.

Drögin að leikjaniðurröðuninni má sjá með því að smella hér.


Tengdar fréttir

Blikar taka sæti Stjörnunnar

Breiðablik mun tefla fram liði í Domino's deild kvenna næsta vetur þrátt fyrir að hafa fallið úr deildinni í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×