Það heitir Heimilisiðnaðarsafnið og á sér yfir fjörutíu ára sögu á Blönduósi. Það stendur við hlið gamla Kvennaskólans á norðurbakka Blöndu skammt frá ósnum.
„Þetta er eina safn sinnar tegundar á Íslandi og við erum sérstaklega að vekja athygli á menningararfi kvenna,“ segir Elín S. Sigurðardóttir, forstöðumaður Heimilisiðnaðarsafnsins.

„Undirfötin, þetta var hvítt, þetta var fallegt, þetta var útbróderað. Sama með sængurfatnað. Falleg milliver. Sængurver voru ekki tekin í notkun fyrr en búið var að merkja þau,“ segir Elín.
Í þjóðbúningsal má sjá peysuföt og skautbúninga. Þar sýnir Elín okkur hvernig framreiðslustúlkur voru klæddar þegar þær gengu um beina í heimsókn Danakonungs árið 1907; í upphlut með hvítri skyrtu og slaufu.

„Hann var mjög rómantískur, hann Sigurður. Hann leit svo á að konan ætti að vera svona tákn fyrir þjóðina, fyrir landið. Blæjan, faldurinn, spöngin; þetta eru tákn fyrir jöklana, fjöllin, sólina,“ segir Elín.
Halldórustofa, helguð Halldóru Bjarnadóttur, sem var frumkvöðull í því að halda menningu kvenna á lofti, þykir sumum helgidómur en þar má sjá persónulega muni hennar.
„Stólinn sem hún kallaði ævinlega hásætið sitt og sagði gjarnan við gesti: Tylltu þér í hásætið og ég gef þér sérríglas.“
Halldóra varð 108 ára gömul og þegar hún lést árið 1981 hafði enginn Íslendingur náð svo háum aldri.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: