Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, starfandi dómsmálaráðherra, kynnti þetta á ríkisstjórnarfundi í morgun að því er fram kemur á dagskrá fundarins.
Markús og Viðar Már óska eftir að láta af störfum sökum aldurs en þeir verða báðir orðnir 65 ára þann 1. október samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu. Þeir hætta þann dag og eitt embætti verður auglýst því samkvæmt lögum um dómstóla eiga hæstaréttardómarar að vera sjö.

Athygli vekur að þeir Markús og Viðar Már eru ekki aldursforsetar Hæstaréttar. Þorgeir Örlygsson, forseti réttarins, er fæddur árið 1952 og þá er Greta Baldursdóttir, eini kvendómarinn við réttinn, fædd sömuleiðis árið 1954.
Hæstaréttardómarar mega láta af störfum við 65 ára aldur en er frjálst að starfa til sjötugs kjósi þeir svo.
Umsvif Hæstaréttar minnkuðu til muna við skipun Landsréttar sem millidómstigs. Nú fara aðeins valin mál fyrir Hæstarétt og velur Hæstiréttur sjálfur þau mál sem rétturinn telur að eigi erindi við dómstólinn.