Tveir leikir voru á dagskrá NBA körfuboltans í Bandaríkjunum í nótt og maður kvöldsins var klárlega Grikkinn stóri og stæðilegi Giannis Antetokounmpo.
Hann fór fyrir liði Milwaukee Bucks sem var með Portland Trail Blazers í heimsókn en Giannis gerði 24 stig, tók 19 fráköst og gaf 15 stoðsendingar en Eric Bledsoe var stigahæstur í liði Bucks með 30 stig.
Hjá Trail Blazers fór CJ McCollum mikinn; gerði 40 stig og gaf 10 stoðsendingar. Gamla brýnið Carmelo Anthony minnti á sig og gerði 18 stig en hann var í byrjunarliðinu eftir að hafa nýlega gengið til liðs við félagið.
Í hinum leiknum vann New Orleans Pelicans sigur á Phoenix Suns í spennandi leik, 121-124. Brandon Ingram, JJ Redick og Jrue Holiday gerðu allir meira en 20 stig hvor fyrir Pelicans en Kelly Oubre Jr. var atkvæðamestur heimamanna með 25 stig.
