Viðskipti innlent

Skúli á­kærður fyrir milli­færslur í að­draganda gjald­þrots

Sylvía Hall skrifar
Skúli Gunnar Sigfússon hefur verið ákærður fyrir millifærslur í aðdraganda gjaldþrots félagsins EK1923.
Skúli Gunnar Sigfússon hefur verið ákærður fyrir millifærslur í aðdraganda gjaldþrots félagsins EK1923. vísir/gva
Embætti héraðssaksóknara hefur ákært Skúla Gunnar Sigfússon, sem betur er þekktur sem Skúli í Subway, fyrir millifærslur af bankareikningum félagsins EK1923 ehf. í aðdraganda gjaldþrots félagsins. Þetta kemur fram á vef mbl.is sem hefur ákæruna undir höndum.

Í ákærunni segir að millifærslurnar hafi verið til þess fallnar að rýra efnahags félagsins í aðdraganda gjaldþrotsins. Fyrrverandi framkvæmdastjórar félaga í eigu Skúla, þeir Guðmundur Hjaltason og Guðmundur Sigurðsson, eru einnig ákærðir.

Millifærslurnar sem um ræðir eru tvær ásamt framsali á kröfu. Önnur millifærslan var millifærð á reikning Sjöstjörnunnar í mars árið 2016 og hljóðaði upp á 21,3 milljónir. Skúli og Guðmundur Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins, eru ákærðir fyrir að hafa í sameiningu látið millifæra upphæðina.

Krafan sem um ræðir var á hendur ríkinu vegna úthlutunar á tollkvóta. Krafan var framseld til Stjörnunnar og hljóðaði heildarupphæð hennar upp á 24,6 milljónir króna, auk vaxta. Framsalið var undirritað bæði af Skúla og Guðmundi Sigurðssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Stjörnunnar, en í ákærunni segir að ekkert endurgjald hafi komið fyrir en að ríkið hafi fallist á hluta kröfunnar, 14,7 milljónir.

Þá snýr einn ákæruliðanna að greiðslum frá félaginu EK1923 til tveggja erlendra birgja sem Guðmundur Hjaltason hafi gefið þáverandi prókúruhafa fyrirmæli um fyrir hönd Skúla. Greiðslurnar fóru fram þann 11. ágúst 2016.

Eiga millifærslurnar og framsalið að hafa átt sér stað frá janúar árið 2016 og fram í ágúst sama ár en krafa um gjaldþrotaskipti var gerð þann 9. maí 2016. Var félagið síðar úrskurðað gjaldþrota þann 7. september árið 2016.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari gat ekki tjáð sig um málið þegar fréttastofa hafði samband í kvöld þar sem hann taldi ekki vera búið að birta ákæruna.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×