Enski boltinn

„Mikilvægur leikmaður fyrir næsta áratuginn“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Phil Foden
Phil Foden Getty/Alex Livesey
Phil Foden er leikmaður sem Pep Guardiola ætlar að reiða sig á næsta áratuginn ef marka má orð hans eftir sigur Manchester City í gærkvöldi. Manchester City komst þar með aftur upp fyrir Liverpool og í toppsætið í ensku úrvalsdeildinni.

Pep Guardiola setti hinn átján ára gamla Phil Foden í byrjunarliðið í fyrsta sinn í ensku úrvalsdeildinni.





„Hann verður mikilvægur leikmaður fyrir Manchester City næsta áratuginn,“ sagði Pep Guardiola eftir 2-0 sigurinn á Cardiff í gær.

Phil Foden hefur spilað 24 leiki á tímabilinu en hann hefur bara byrjað bikarleiki og svo komið inn á sem varamaður í deildinni.

„Þótt að hann sé ungur leikmaður þá getur hann gert allt. Hann skapar færi í öllum leikjum,“ sagði Pep Guardiola.

Phil Foden hefur þegar skorað sex mörk fyrir City-liðið í bikarkeppnunum tveimur.





„Hann hefur spilað fullt af mínútum á tímabilinu [966] og þetta var nú ekki hans fyrsti opinberi leikur með okkur. Hann er hluti af þessum hóp. Á síðasta tímabili æfði hann með okkur og spilaði stundum. Á þessu tímabili hefur hann verið með á öllum æfingum og alltaf með okkur í klefanum. Hann er hluti af þessu lið og veit það sjálfur,“ sagði Guardiola.

„Phil er frábær leikmaður en á sama tíma er ekki auðvelt fyrir hann að spila í stöðunni hans David Silva, stöðunni hans Kevin de Bruyne og að berjast um sætin við þá Ilkay Gundogan og Bernardo Silva,“ sagði Guardiola.

„Hann hefur ástríðuna og hann vill vera hér. Við erum mjög ánægðir með hann og að hann sé hér. Ég fullvissa ykkur um það að hann mun spila fleiri mínútur á næsta tímabili,“ sagði Guardiola.

Phil Foden var aðeins 18 ára og 310 daga gamall í gær og hann er yngsti Englendingurinn til að byrja leik hjá Manchester City síðan Daniel Sturridge byrjaði leik í janúar 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×