Enski boltinn

„Faldi fótboltaskóna mína fyrir mömmu og pabba“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jawahir Roble klæðist ekki venjulegum dómarabúningi.
Jawahir Roble klæðist ekki venjulegum dómarabúningi. Skjámynd/Breska ríkisútvarpið
Jawahir Roble kom til Englands fyrir fjórtán árum sem flóttamaður frá Sómalíu en í dag er hún að brjóta múra í enska fótboltanum.

JJ Roble eins og hún er oftast kölluð er fyrsta múslímska blökkukonan sem starfar sem knattspyrnudómari í Bretlandi en að auki dæmir hún ekki í hinum venjulega dómarabúningi því hún klæðist hijab-slæðu við dómgæsluna.

Breska ríkisútvarpið kynnti sér betur sögu og aðstæður JJ Roble á leið sinni að opna nýjar dyr fyrir fyrir minnihlutahóp innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Hún fékk innslag um sig í The One Show á BBC.





Markmið hennar er að hvetja aðrar konur til dáða og fá fleiri kynsystur sínar til að spila fótbolta. Með þessu ætti enska landsliðið að geta komist á toppinn í framtíðinni.

„Með því að vera kona í fótbolta þá hefur þú þegar brotið nokkrar reglur í huga sumra karlmanna. Þegar ég byrjaði að dæma fótboltaleiki þá voru leikmenn bæði hneykslaðir og hissa að sjá mig,“ sagði JJ Roble.

„Ég og fjölskylda mín bjuggum öll í Sómalíu þegar borgarastyrjöldin braust út. Við urðum að flýja heimilið okkar og landið okkar. Við komum til Englands til að byrja nýtt líf,“ sagði JJ Roble.

Hún var tíu ára gömul þegar hún kom fyrst til London og fjölskyldan settist að í nágrenni Wembley-leikvangsins.





„Sem mikil fótboltaáhugakona var það algjör draumur að komast að því að fyrsta heimili mitt væri rétt hjá Wembley,“ sagði JJ Roble brosandi. Það var aftur á móti ekki vinsælt á heimilinu að hún færi að spila fótbolta.

„Foreldrar mínir voru ekki sáttir við það að ég væri að spila fótbolta. Í þeirra augum er ég stelpa og ætti ekki að vera að spila fótbolta eða að hlaupa um.  Ég faldi því fótboltaskóna mína fyrir mömmu og pabba þegar ég kom heim og flýtti mér að skipta yfir í venjulegu fötin mín,“ rifjar JJ Roble upp.

„Svo kom að því að ég gat ekki logið lengur að þeim. Ég sagði hingað ekki lengra og sagði þeim að ég vildi verða knattspyrnudómari og taka fótboltann minn alvarlega. Þau sögðu: Þú ert svo þrjósk, JJ. Láttu bara vaða,“ sagði JJ Roble brosandi.

JJ Roble hefur nú sett stefnuna á það að dæma í úrvalsdeildinni hjá konunum. Það má sjá allt umfjöllun BBC um JJ með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×