Enski boltinn

Klopp: Salah hjálpar okkur mikið þótt að hann sé ekki að skora

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp faðmar Mohamed Salah eftir enn einn markalausa leikinn.
Jürgen Klopp faðmar Mohamed Salah eftir enn einn markalausa leikinn. Getty/Robbie Jay Barratt
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að Mohamed Salah sé ekkert að svekkja sig á því þótt að hann hafi ekki skorað mark síðan 9. febrúar.

Mohamed Salah skoraði 44 mörk í öllum keppnum á síðustu leiktíð en er kominn með tuttugu mörk á þessu tímabili. Hann skoraði mikið fyrir áramót en það hefur verið lítið um mörk eftir fyrsta mánuðinn á árinu 2019.

Salah átti samt stóran þátt í sigurmarkinu á móti Tottenham um síðustu helgi og fagnaði því eins og sínu eigin. „Þetta var sjálfsmark en skallinn frá Mo þvingaði það fram. Mér leið eins og þetta væri hans mark,“ sagði Jürgen Klopp.





Síðasta mark Mohamed Salah kom í 3-0 sigri á Bournemouth fyrir næstum því tveimur mánuðum síðan.

„Hvernig vinnur þú þig út úr slíkri stöðu eftir að hafa 40 mörk á síðasta ári,“ spurði Jürgen Klopp sem er augljóslega að reyna að finna leiðir til að létta markapressunni af besta sóknarmanninum sínum.

„Ferillinn hans er ekki búinn. Ef hann skorar tuttugu mörk á þessu tímabili þá hefur hann skorað 60 mörk á síðustu tveimur leiktíðum. Vá, það er nú ekki slæmt,“ sagði Klopp léttur.

„Ef við værum bara með einn markaskorara þá væri staðan öðruvísi. Í ár þá þurfum við ekki eins mikið að treysta á mörkin hans Mo. Hann er engu að síður í mjög góðri stöðu á markalistanum í sambandi við aðra markaskorara deildarinnar,“ sagði Klopp.

„Það er ógn af honum. Hann hjálpar okkur mikið. Hann tekur líka á nýjum kringumstæðum virkilega vel,“ sagði Klopp.





„Þetta snýst um vinnusemi, og endurtaka hlutina aftur og aftur. Einn daginn mun boltinn detta fyrir þig,“ sagði Klopp.

„Við erum með 79 stig. Þú getur ekki verið mörg vandamál þegar þú ert kominn með svo mörg stig,“ sagði Klopp.

Næsti leikur Liverpool er á móti Southampton á útivelli annað kvöld en með sigri þá nær Liverpool toppsætinu aftur af Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×