Greint var frá árásinni í dagbók lögreglu sem send var út í morgun. Þar segir að maður í annarlegu ástandi hafi ráðist að börnum í strætóskýli og hlaupið af vettvangi. Lögregla náði manninum skömmu síðar og þá hafi einn leitað á slysadeild vegna atviksins.
Henti piltinum framan á vagninn
Árni Björn Hilmarsson vagnstjóri hjá Strætó á höfuðborgarsvæðinu kom að árásinni sem varð við strætóstoppistöðina að Efstahjalla á Nýbýlavegi rétt fyrir klukkan tíu í gærkvöldi. Árni, sem ekur leið 4, segir í samtali við Vísi að aðkoman hafi verið ljót þegar hann renndi upp að stoppistöðinni á vagni sínum en maðurinn hafði þá tekið piltinn hálstaki.„Ég kem þarna að og þá er hann að takast á við hann og hendir honum framan á vagninn. Ég skildi þá í sundur eftir að hann ræðst á hann. Svo eftir að ég var búinn að skilja þá í sundur þá kýlir hann drenginn aftur. Þeir þekktust ekki neitt. Þetta leit mjög illa út, hann tók hann hálstaki,“ segir Árni.
Reyndi að komast inn í íbúðarhús á flóttanum
Maðurinn tók því næst á rás burt af vettvangi en Árni veitti honum eftirför.„Hann er að bíða eftir strætó ásamt tveimur stelpum. Mér skilst á þeim öllum þremur að hann [árásarmaðurinn] hafi fyrst ætlað að ráðast á þær. Svo veitti ég honum eftirför af því að ég var með lögregluna í símanum. Ég labbaði ákveðið á eftir honum og á leiðinni reyndi hann að komast inn í íbúðarhús.“
Árni segist hafa misst sjónar á manninum að lokum en á þeim tímapunkti var hann kominn í samband við lögreglumenn á bílum í nágrenninu. Lögregla hafði hendur í hári mannsins skömmu síðar.
„Ég er búinn að vera mörg ár í þessum akstri og séð ýmislegt. En aldrei svona alvarlega árás.“
Árásin kærð til lögreglu
Þóra Jónasdóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn á lögreglustöð 3 í Kópavogi staðfestir í samtali við Vísi að þrír unglingar hafi orðið fyrir árás. Stúlka, sem leitaði aðhlynningar á slysadeild, hafi kært árásina til lögreglu. Þá hafi verið rætt við alla málsaðila og málið sé í rannsókn.Lögregla veit jafnframt hver árásarmaðurinn er en hann var handtekinn skömmu eftir að tilkynnt var um árásina. Honum hefur verið sleppt úr haldi lögreglu.
Fréttin hefur verið uppfærð.