Jared Kushner, tengdasonur og ráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, kynnti í gær áætlun Bandaríkjastjórnar um að fjárfest verði í palestínsku hagkerfi fyrir fimmtíu milljarða Bandaríkjadala og þannig sótt í átt að friði á milli Palestínu og Ísraels. Áætlunin var kynnt á tveggja daga alþjóðlegri ráðstefnu í Barein.
Að sögn Kushners er einnig þörf á pólitískri lausn á deilunni. Hins vegar sé hægt að ná miklu fram með því að þróa palestínskt hagkerfi. „Við sjáum mikil tækifæri. Það sem við höfum nú þróað er umfangsmesta efnahagsmálaáætlun sem nokkurn tímann hefur verið gerð fyrir Palestínu,“ sagði Kushner.
Stjórnvöld í Palestínu hafa ekki sýnt hugmyndum Kushners og Trump-stjórnarinnar mikinn áhuga. „Peningar eru mikilvægir, hagkerfið er mikilvægt en stjórnmál eru enn mikilvægari. Pólitísk lausn er mikilvægari,“ hafði Reuters eftir Mahmoud Abbas forseta.
Um þessa afstöðu Abbas sagði Kushner: „Dagurinn í dag er ekki tileinkaður stjórnmálavandanum. Við komum að honum á réttum tíma.“
Erlent