Erlent

Viðræðurnar árangurslausar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Abbas Araqhchi.
Abbas Araqhchi. Nordicphotos/AFP
Viðræður gærdagsins í Vín gerðu lítið til að slá á áhyggjur Íransstjórnar og stefnir því enn í að ríkið fari fram úr þeim takmörkum sem sett voru á söfnun auðgaðs úrans með gerð JCPOA-kjarnorkusamningsins árið 2015.

Fulltrúar Írans hittu fulltrúa Breta, Þjóðverja, Frakka, Rússa, Kínverja og ESB í austurrísku höfuðborginni í gær til að ræða stöðu mála.

Íransstjórn hafði áður sagst ætla að hætta að framfylgja samningnum vegna þeirra nýju þvingana sem Bandaríkin lögðu gegn ríkinu eftir að Donald Trump forseti rifti samningnum af hálfu ríkis síns.

Að því er Reuters hafði eftir Abbas Araqchi, varautanríkisráðherra Írans og sendiboða Írana á fundinum, voru viðræðurnar skref í rétta átt en undir væntingum Íransstjórnar.

Það væri undir yfirmönnum hans komið hvort hætt verði að framfylgja samningnum og sagði hann ólíklegt að viðræðurnar hefðu gert nokkuð til að telja þeim trú um að halda í plaggið.

„Ákvörðunin um að draga úr skuldbindingum okkar hefur nú þegar verið tekin og við munum halda áfram á þeirri leið þangað til komið er til móts við okkur. Ég held að árangurinn hér í dag sé ónógur til þess að stöðva þetta ferli en ákvörðunin verður tekin í Teheran,“ sagði Araqchi enn fremur.




Tengdar fréttir

Trump segir að öllum árásum verði svarað af fullum krafti

Forseti Írans segir Bandaríkjaforseta stríða við þroskahömlun eftir tilkynningu um nýjar þvinganir. Sá bandaríski segir yfirlýsinguna móðgandi og segir að hverri árás á bandarískt skotmark verði svarað af fullum krafti, í sumum tilfellum af gjöreyðingarmætti.

Útlit fyrir að Íran brjóti gegn samningnum

Ef fram heldur sem horfir mun Íran gerast brotlegt við ákvæði JCPOA-kjarnorkusamningsins innan fáeinna daga og eiga meira auðgað úran en samningurinn heimilar. Þetta hafði Reuters eftir erindrekum sem vitnuðu til gagna rannsakenda á vegum Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×