Erlent

Morðinginn í El Paso vildi drepa "Mexíkóa“

Kjartan Kjartansson skrifar
Íbúar El Paso hafa minnst fórnarlamba fjöldamorðsins með ýmsu móti. Maður límir upp spjald sem á er letrað El Paso sterk.
Íbúar El Paso hafa minnst fórnarlamba fjöldamorðsins með ýmsu móti. Maður límir upp spjald sem á er letrað El Paso sterk. AP/John Locher
Rúmlega tvítugur karlmaður sem skaut 22 viðskiptavini stórmarkaðar í El Paso í Texas um síðustu helgi gekkst greiðlega við glæpnum þegar hann var handtekinn og sagði lögreglu að hann hefði vilja drepa „Mexíkóa“.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í greinargerð lögreglunnar í El Paso sem lögð var fram fyrir dómi í dag. Lögreglumenn stöðvuðu bifreið morðingjans skammt frá Walmart-versluninni þar sem hann skaut 22 til bana og særði fjölda annarra á laugardag. Hann á að hafa stigið út úr bílnum með hendur á lofti og sagt „Ég er byssumaðurinn“, að sögn New York Times.

Maðurinn sagði lögreglu enn fremur að hann hefði notað AK-47-hríðskotariffil og verið með fjölda skotfæra með sér. Hann hafi ekið tíu til ellefu klukkustunda leið frá Dallen í Texas til El Paso í því skyni að skjóta „Mexíkóa“.

Áður hafði lögreglan greint frá því að morðinginn skrifaði fjögurra blaðsíðna stefnuyfirlýsingu þar sem hann lýsti meðal annars stuðningi við fjöldamorðingjanna í Christchurch á Nýja-Sjálandi sem myrti tugi múslima í tveimur moskum í mars. Árásin væri svar hans við „rómanskri innrás í Texas“.

Gæti átt yfir höfði sér dauðarefsingu

Donald Trump forseta og ýmsum repúblikönum hafa ítrekað líkt straumi innflytjenda og hælisleitenda yfir suðurlandamærin að Mexíkó við innrás og dregið upp mynd af þeim sem hættulegum glæpamönnum. Árásin í El Paso hefur vakið upp spurningar hvort að forsetinn og hægrisinnaðir fjölmiðlar hafi átt þátt í að skapa andrúmsloft fyrir voðaverk af þessu tagi.

Morðinginn hefur verið ákærður fyrir morð og gæti átt yfir höfði sér dauðarefsingu. Árásin er jafnframt rannsökuð sem hatursglæpur og hafa alríkislögreglumenn lýst henni sem hryðjuverki. Maðurinn hefur setið í fangelsi frá því að hann var handtekinn en lögreglan segir að hann hafi verið samvinnuþýður. Washington Post hefur eftir Greg Allen, lögreglustjóranum í El Paso, að morðinginn hafi ekki sýnt neina iðrun en að hann gæti verið í „áfalli“.

Skömmu eftir fjöldamorðið í El Paso skaut vopnaður maður níu til bana fyrir utan skemmtistað í Dayton í Ohio. Alríkislögreglan FBI segir að sú árás sé rannsökuð sem hryðjuverk eftir að vísbendingar fundust um að árásarmaðurinn gæti hafa aðhyllst „ofbeldisfulla hugmyndafræði“. Þá er mannskæð skotárás á matarmarkað í Gilroy í Kaliforníu 28. júlí nú rannsökuð sem hryðjuverk.


Tengdar fréttir

Tala látinna í El Paso hækkar

Fjöldi látinna er kominn upp í 21 eftir að eitt fórnarlamba skotárásarinnar lést á sjúkrahúsi í El Paso í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×