Erlent

Leggja sektir við að móðga yfirvöld á netinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Bannað verður að vanvirða rússneska fánann á netinu verði frumvörpin að lögum.
Bannað verður að vanvirða rússneska fánann á netinu verði frumvörpin að lögum. Vísir/EPA
Rússneska þingið samþykkti lög sem fela í sér nýjar sektir fyrir þá sem hafa uppi móðgandi ummæli um yfirvöld á netinu eða dreifa fölskum fréttum. Þúsundir Rússa hafa mótmælt frumvörpunum og vaxandi ritskoðun rússneskra yfirvalda á netinu.

Vladímír Pútín, forseti, á enn eftir að skrifa undir frumvörpin til að veita þeim lagagildi. Samkvæmt einu þeirra yrði allt að 180.000 króna sekt lögð við því að sýna af sér „blygðunarlausa vanvirðingu“ á netinu fyrir ríkinu, yfirvöldum, almenningi, rússneska þjóðfánanum eða stjórnarskránni, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Hægt yrði að fangelsa „síbrotamenn“ í allt að fimmtán daga.

Annað frumvarp leggur til að yfirvöld geti lokað á vefsíður ef aðstandendur þeirra neita að fjarlægja upplýsingar sem yfirvöld telja efnislega rangar. Hægt yrði að sekta fólk um tæpar 730.000 krónur fyrir að dreifa fölskum upplýsingum á netinu sem leiði til „mikilla brota á allsherjarreglu“.

Mannréttindasamtök höfðu mælt eindregið á móti því að frumvörpin yrðu samþykkt. Með þeim væru yfirvöld að koma á beinni ritskoðun í Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×