Erlent

14 ára ákærður fyrir morð eftir eggjakast og eltingarleik

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá vettvangi slyssins. Konan sem lést ók rauða bílnum.
Frá vettvangi slyssins. Konan sem lést ók rauða bílnum. AP/Nicole Hensley
Fjórtán ára drengur í Houston í Bandaríkjunum hefur verið ákærður fyrir morð eftir að kona lést vegna áreksturs sem rekja má til eggjakasts unglingsins og vina hans og eltingarleiks sem hófst í kjölfarið.

Drengurinn, sem er undir lögaldri, var á bak við stýrið á jeppa en í bílnum voru auk hans tveir aðrir farþegar undir lögaldri. Svo virðist sem að þeir hafi leikið sér að því að kasta eggjum í aðra vegfarendur.

Í frétt NBCvegna málsins segir að ökumaður annars bíls, sem varð fyrir eggjahríðinni, hafi orðið ósáttur við drengina og dregið upp byssu áður en hann elti drengina á bíl sínum.

Drengurinn gaf þá í, keyrði yfir á rauðu ljósi og beint á Ford-pallbíl. Talið er að ökumaður hans, hin 45 ára gamla Silvia Zavala, hafi látist samstundis í árekstrinum.

Lögreglustjórinn í Harris-sýslu segir að drengurinn hafi verið ákærður vegna morðs. Hann ökklabrotnaði í árekstrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×