Enski boltinn

Stjóri Everton ekki sáttur með Pickford og slagsmálin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Silva er búinn að ræða um Pickford sem heldur sig væntanlega á mottunni á næstunni.
Silva er búinn að ræða um Pickford sem heldur sig væntanlega á mottunni á næstunni. vísir/getty
Marco Silva, knattspyrnustjóri Everton, er ekki sáttur með markvörð liðsins, Jordan Pickford.

Pickford tók þátt í slagsmálum fyrir utan bar í Sunderland á sunnudagskvöldið og myndbönd af þeim birtust á samfélagsmiðlum. Enski landsliðsmaðurinn brást illa við þegar barfluga lét miður falleg ummæli falla um kærustu hans.

Á blaðamannafundi í dag var Silva spurður út í atvikið. Portúgalinn viðurkenndi að hann væri ósáttur með markvörðinn sinn.

„Engin er ánægður með þessa stöðu. Þetta var ekki gott,“ sagði Silva. „En við höfum gert allt sem við gátum gert. Hann veit við hverju er búist af honum. Málinu er lokið.“

Pickford fylgdist með sínu gamla liði, Sunderland, mæta Portsmouth í úrslitaleik bikarkeppni neðri deildar liða á Wembley á sunnudaginn ásamt félögum sínum. Dagskránni lauk svo á bar í Sunderland þar sem upp úr sauð. Pickford var farinn þegar lögreglan mætti á svæðið. Engan sakaði og enginn var handtekinn.

Everton keypti Pickford frá Sunderland fyrir 25 milljónir punda sumarið 2017. Hann hefur leikið 80 leiki fyrir Everton.

Pickford hefur verið aðalmarkvörður enska landsliðsins frá því í fyrra. Hann átti stóran þátt í því að England komst í undanúrslit á HM í Rússlandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×