Enski boltinn

Rose: Get ekki beðið eftir að hætta í fótbolta

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Rose í leiknum gegn Svartfjallandi þar sem hann og hörundsdökkir félagar hans urðu fyrir kynþáttaníði.
Rose í leiknum gegn Svartfjallandi þar sem hann og hörundsdökkir félagar hans urðu fyrir kynþáttaníði. vísir/getty
Danny Rose, varnarmaður Tottenham, er gjörsamlega kominn með upp í kok af kynþáttaníði á knattspyrnuvöllum. Svo mikið að hann telur niður dagana þar til hann hættir í boltanum.

Rose hefur sjálfur margoft mátt þola kynþáttaníð á vellinum og nánast um hverja helgi berast fréttir af slæmri hegðun áhorfenda. Það fer í taugarnar á Rose hversu lítið er tekið á þessum málum.

Rose mátti þola kynþáttaníð í leik Englands og Svartfjallalands í Svartfjallalandi á dögunum en býst ekki við því að Svartfellingum verði refsað harkalega.

„Við hverju býst fólk þegar þessar sektir eru álíka háar og það sem ég eyði á laugardagskvöldi á djamminu?“ sagði Rose sem neitar að hætta strax í fótbolta þó svo hann hafi fengið nóg.

„Ég býst við því að eiga svona fimm til sex ár eftir. Ég get ekki beðið eftir því að hætta svo.“

Það hafa svo verið mikil læti á Ítalíu eftir að Moise Kean, framherji Juventus, mátti þola kynþáttaníð á Ítalíu um síðustu helgi.

Aleksander Ceferin, forseti UEFA, segist ætla að biðja dómara um að vera hugrakka og stöðva leik ef leikmaður verður fyrir kynþáttaníði úr stúkunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×