Enski boltinn

Segja að Pogba heimti ellefu milljónir á dag til að vera áfram hjá Man. United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vinirnir Paul Pogba og Romelu Lukaku voru ekki alveg sáttir í síðasta leik.
Vinirnir Paul Pogba og Romelu Lukaku voru ekki alveg sáttir í síðasta leik. Getty/Marc Atkins
Vangaveltur um framtíð Paul Pogba eru enn á ný á síðum ensku blaðanna í dag en mikið hefur verið skrifað um áhuga leikmannsins að fara til Real Madrid.

Pogba hefur gert flotta hluti inn á vellinum eftir að Ole Gunnar Solskjær tók við af Jose Mourinho en eftir að umræðan um Real Madrid fór á flug þá hefur verið minna um mörk og stoðsendingar hjá Frakkanum öfluga.

Ole Gunnar hefur sagt að Pogba sé ánægður hjá Manchester United og Pogba sóttist sjálfur eftir því að Solskjær yrði fastráðinn í stjórastólinn á Old Trafford.

Í morgun er því síðan slegið upp í slúðurblöðunum Daily Mail og Sun að Paul Pogba heimti 500 þúsund pund í vikulaun vilji Manchester United halda honum hjá félaginu.





500 þúsund pund á viku eru rúmar 78 milljónir íslenskra króna sem þýddi að Frakkinn væri þá með meira en ellefu milljónir í laun á dag.

Það er draumur margra knattspyrnumanna að spila fyrir Real Madrid og Pogba hefur ekkert falið það þegar hann hefur verið spurður beint út í áhuga spænska félagsins.

Paul Pogba er hins vegar með samning til 30. júní 2021 eða í tvö tímabil í viðbóta. Það er aftur á móti ljóst að ef hann framlengir ekki samning sinn fljótlega þá munu ensku fjölmiðlarnir smjatta á vangaveltum um framtíð hans næstu mánuðina.





Pogba er með 11 mörk og 9 stoðsendinga í 29 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili en hann hefur ekki komið að marki í síðustu fjórum deildarleikjum United-liðsins.

Í fyrstu níu deildarleikjunum undir stjórn Ole Gunnars Solskjær kom hann með beinum hætti að þrettán mörkum (8 mörk og 5 stoðsendingar).

Manchester United hefur tapað tveimur af síðustu fjórum deildarleikjum sínum þar á meðal 2-1 á móti Wolves í þessari viku. Fyrir vikið er liðið nú aftur komið niður í sjötta sæti deildarinnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×