Körfubolti

Vann Íslandsmeistaratitil sem þjálfari eins liðs og leikmaður annars á sama deginum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveinbjörn Jóhannesson í leik með Blikum í Domino´s deildinni í vetur.
Sveinbjörn Jóhannesson í leik með Blikum í Domino´s deildinni í vetur. Vísir/Daníel
Blikar verða ekki tvöfaldir Íslandsmeistarar á hverjum degi í körfuboltanum en sunnudagurinn 19. maí 2019 er einn af þeim stóru í körfuboltasögu félagsins.

Unglingaflokkur karla og 10. flokkur karla tryggðu sér báðir Íslandsmeistaratitla í Röstinni í Grindavík í gær.

Sveinbjörn Jóhannesson átti mikinn þátt í báðum þessum titlum. Hann er nefnilega þjálfari 10. flokks strákanna og lykilmaður í unglingaflokknum.

Sveinbjörn gerði meira en að spila unglingaflokksleikinn því hann var valinn besti leikmaður úrslitaleiksins.

10. flokkurinn vann fyrst 59-55 sigur á Stjörnunni þar sem frábær annar leikhluti (20-8) lagði grunninn að sigrinum. Arnar Freyr Tandrason skoraði 26 stig, tók 10 fráköst og var valinn besti maður leiksins.

Unglingaflokkurinn vann síðan mjög óvæntan sigur á Njarðvíkingum. Njarðvíkingar höfðu unnið alla leiki sína á tímabilinu en Blikar höfðu betur í úrslitaleiknum og unnu 81-76.

Sveinbjörn Jóhannesson átti mjög góðan leik í úrslitaleiknum með 14 stig, 9 fráköst, 5 stoðsendingar og 2 varin skot. Hann hitti úr 5 af 7 skotum sínum.

Þetta er í fyrsta sinn sem Breiðablik verður Íslandsmeistari í unglingaflokki karla og einnig í fyrsta sinn sem Breiðablik verður Íslandsmeistari í 10. flokki karla.

Breiðablik vann 7.flokk karla árið 2006, 9. flokk karla árið 2008 og 8. flokk karla árið 2018. Blikar hafa einnig unnið minnibolta 11 ára fjórum sinnum eða 2002, 2003, 2005 og 2007.

Eins og sjá má á þessu þá er þetta í fyrsta sinn sem Blikar vinna tvo Íslandsmeistaratitla í yngri flokkum karla í körfubolta á sama tímabili og þeir komu báðir í hús á sama degi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×