Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - Fylkir 4-2 │Höskuldur gerði gæfumuninn í framlengingunni

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Höskuldur skoraði tvö mörk í framlengingunni.
Höskuldur skoraði tvö mörk í framlengingunni. vísir/daníel
Vonin um tvennuna í Kópavoginum lifir eftir sigur á Fylki í framlengdum leik. Leikurinn var bæði skemmtilegur og kaflaskiptur en gestirnir úr Árbænum komust yfir snemma í leiknum. Heimamenn komust síðan yfir í seinni hálfleik en Fylkir jafnaði fljótlega og staðan eftir 90 mínútur var 2-2. Höskuldur Gunnlaugsson skaut síðan Blikum áfram með tveimur mörkum í framlengingunni. 

 

Fylkismenn komu miklu ákveðnari inn í leikinn og gestirnir áttu nokkur fín færi strax á fyrstu tíu mínútunum. Miðjan hjá Fylki var að vinna boltann vel og síðan voru fremstu menn hjá Fylki að taka góð hlaup. Á 12. mínútu skilaði það sér með marki frá Valdimar Þór Ingimundarsyni. Valdimar fékk þar fína sendingu frá Geoffrey Castillion en Geoffrey var með góða stöðu á kantinum eftir frábæra sendingu frá Kolbeini Birgi Finnssyni. 

 

Eftir markið var eins og Blikar áttuðu sig á mikilvægi leiksins. Þeir tóku yfir leikinn en áttu þó erfitt með skapa sér færi úr opnum leik. Gestirnir voru að verjast mjög vel í teignum. Undir lok fyrri hálfleiks braut Thomas Mikkelsen ísinn fyrir Blika með öruggri vítaspyrnu í þaknetið. Daði Ólafsson tók Höskuld Gunnlaugsson niður í teignum og Einar Ingi dómari leiksins var fljótur að benda á punktinn. Staðan í hálfleik var 1-1 og heimamenn með ákveðin tök á leiknum. 

 

Seinni hálfleikur byrjaði með látum en það voru dauðafæri á báða boga. Fyrst Geoffrey Castillion fyrir Fylki og síðan Thomas Mikkelsen fyrir Blika. Markmennirnir voru á tánum og lokuðu rammanum í bili. 

 

Á 58. mínútu benti Einar Ingi dómari leiksins aftur á punktinn og aftur eftir brot hjá Fylki. Í þessu tilviki var það Ásgeir Eyþórsson sem gleymdi að dekka Thomas Mikkelsen í smá stund og þurfti síðan að brjóta á honum eftir að vera kominn í slæma stöðu varnarlega. Thomas Mikkelsen fór sjálfur á punktinn og kláraði vítaspyrnuna en Aron Snær Friðriksson markmaður Fylkis var ansi nálægt því að verja boltann.

 

Gestirnir voru ekki lengi að svekkja sig og aftur var það svipuð uppskrift og í fyrra markinu. Kolbeinn Birgir vann skallaeinvígi við Elfar og kom aftur Geoffrey í góða stöðu. Geoffrey náði að koma boltanum á milli lappana á Gulla sem var búinn að æða út og boltinn var á leiðinni í markið. Valdimar Þór kom síðan og potaði boltanum í markið til að tryggja að boltinn færi nú örugglega inn. 

 

Bæði lið sóttu á fullu út venjulega leiktímann og hefði þau bæði getað klárað þetta á 90 mínútum. Undir lok venjulega leiktímans fór þetta þó aðeins að róast. Framlengingin byrjaði sömuleiðis rólega. 

 

Eftir tæplega tíu mínútur af framlengingunni þurfti Gunnleifur Gunnleifsson markmaður Blika að verja vel í tveimur sóknum í röð. Fylkis menn komust tvisvar í fín færi en leikjahæsti leikmaður í sögu efstu deildar var tilbúinn í rammanum. 

 

Höskuldur Gunnlaugsson setti nafnið á sitt þessa framlengingu með tveimur mörkum, fyrst rétt fyrir hálfleikinn og síðan beint eftir hann. Davíð Ingvarsson leikmaður Breiðabliks sparkaði boltanum í teiginn frá miðjunni og þar var Höskuldur tilbúinn og hamraði boltanum í netið eftir að varnarmaður Fylkis skallaði boltanum upp í loftið. Einhverjir í Árbænum vilja eflaust meina að markið hafi verið ólöglegt en þið þurfið bara að horfa á það í Mjólkurbikar mörkunum ef þið viljið dæma um það. 

 

Seinna markið kom síðan eftir algjöran klaufaskap í vörn Fylkis og Höskuldur endaði á að skora í tómt mark. Thomas Mikkelsen komst eiginlega einn í gegn og Aron Snær markmaður Fylkis æddi út til að reyna að stöðva hann. Reynsluboltinn Thomas beið bara rólegur og fann Höskuld sem skoraði í tómt mark.

 

Af hverju vann Breiðablik?

Þeir kláruðu þetta auðvitað í framlengingunni og eiga skilið mikið hrós. Annars hefði þetta geta lent báðu megin og maður skilur vel þá Árbæinga sem svekkja sig á þessum úrslitum. 

 

Hverjir stóðu upp úr? 

Höskuldur Gunnlaugsson var heilt yfir sprækasti leikmaður Breiðabliks og kóronaði síðan leik sinn með þessum tveimur mörkum í framlengingunni. Í byrjun voru Blikar ekki alveg að finna sig í þessu nýja leikkerfi sínu en þegar leið á leikinn fóru þeir Höskuldur og Aron á köntunum að skapa sér pláss og færi. 

 

Erfitt að taka fleiri Blika út fyrir sviga en Thomas Mikkelsen átti mjög fínan leik líka í kvöld. Var að halda boltanum ágætlega og gerði mjög vel í að fiska seinna vítið. Síðan skemmir auðvitað ekkert fyrir að hafa skorað úr báðum vítunum. 

 

Kolbeinn Birgir Finnson var örugglega bestur í liði Fylkis. Gæinn hljóp endalaust, sérstaklega í upphafi leiks og alltaf þegar Fylkir sköpuðu hættu þá átti Kolbeinn hlut í því. Góðar sendingar hjá honum og þrátt fyrir að það sé ekki stoðsending fyrir það þá var hann með lykilsendingar í báðum mörkum Fylkis. Valdimar skapaði líka oft hættu og skoraði þessi 2 mörk í kvöld. Geoffrey Castillon áttu sömuleiðis mjög fínan leik fyrir Fylki. Lagði upp bæði mörkin og átti nokkur hættuleg skot líka. 

 

Hvað gekk illa?

Gestirnir voru að mörgu leyti betri í leiknum en gera sig seka um einstaklings mistök í öllum mörkunum. Af 5 öftustu hjá Fylki áttu held ég bara allir stór einstaklingsmistök í einhverju af mörkunum. Þetta gengur auðvitað ekki og núna eru þeir búnir að fá á sig 12 mörk á síðustu 300 mínútum af fótbolta. 

 

Blikar áttu á köflum erfitt með að brjóta upp Fylkisvörnina og þurftu eiginlega alltaf á klaufaskap hjá Fylki að halda til að geta skapað sér góð færi. Ótrúlegt að skrifa þetta um lið með eins mikil gæði fram á við og Breiðablik en það var raunin í kvöld, skoruðu auðvitað 4 mörk en áttu ekki mörg fleiri hættuleg færi í teignum. Brynjólfur Darri kannski átti sérstaklega erfitt með að skapa og var dálítið út um allt á köflum. 

 

Hvað gerist næst?

Toppslagur í Vesturbænum á mánudaginn. Breiðablik og KR eru þau lið á Íslandi sem eru að spila best um þessar mundir og þau mætast núna á mánudaginn klukkan 19.15 á Meistaravöllum. Leikurinn verður auðvitað í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport svo þið getið öll bara sest í besta sætið á mánudaginn. 

 

Fylkismenn fá KA í heimsókn í Árbæinn á sunnudaginn klukkan 17.00. Ef þeir ætla sér í þessa Evrópubaráttu sem þeir vilja meina að þeir eigi heima í þá er væru 3 stig í þeim leik ansi dýrkeypt. Þessi leikur er auðvitað líka í besta sætinu. 

 

Gústi: Gömul klisja en sýndum karakter

„Ég er ánægður með kraftinn í okkur að hafa klárað þetta. Þetta var gríðarlega erfiður leikur. Fylkismenn voru mjög góðir, allavega í 90 mínútur og fyrri hluta framlengingarinnar. Þetta er kannski gömul klisja en við sýndum gríðarlegan karakter hérna á heimavelli. Vinnuframlagið var bara til sóma hjá okkur,” sagði Ágúst Þór Gylfason þjálfari Breiðabliks eftir leik kvöldsins er Blikar tryggðu sér sæti í undanúrslitunum.

 

Blikar áttu nokkra kafla þar sem þeir misstu gestina frá sér og hleyptu mikið af færum á sig. Á báðum þessum köflum skoruðu gestirnir en Gústi er ekki að kippa sér upp yfir því núna. 

 

„Ég man ekkert eftir þessum köflum. Við komumst bara áfram og skoruðum 4 mörk. Við kvittuðum aðeins fyrir síðasta leik. Fylkismennirnir vour góðir og það var fyrir öllu að komast áfram. Hrós til okkar manna og stuðningsmannana, þeir eru frábærir.” 

 

Gústi vildi ekkert gefa upp um óskamótherja eins og allir þjálfarar í sögu bikarkeppna í heiminum. 

 

„Þetta eru allt bara frábær lið og það væri frábært að mæta einhverju af þessum liðum. Það er enginn óskamótherji en þetta eru bara flott lið sem eru komin áfram.” 

 

Blikar eiga gríðarlega erfiðanleik á Meistaravöllum á mánudaginn þegar þeir sækja KR heim. Þessi tvö lið eru efst í Pepsi Max deildinni og það ætti að vera mikil spenna fyrir leiknum.

 

„Nei, það verður ekki erfitt að gíra menn upp. Við erum að fara í Frostaskjólið sem er náttúrulega gríðarlega erfiður leikur og það þarf ekkert að gíra menn neitt upp. Við þurfum bara að slaka aðeins á núna og ná góðri endurheimt til að vera síðan klárir í þann leik.” 

 

Helgi: Verðum að treysta þessum dómurum

„Þetta er auðvitað mikið svekkelsi. Mér fannst við vera betri heilt yfir í 90 mínútur og fá mun betra færi en þeir. Svekkelsi að ná ekki að klára þetta á þeim tíma. Svo getur allt gerst í framlengingu þegar menn eru orðnir þreyttir og einbeitingin fer aðeins. Mér fannst við vera með nóg af færum til að klára þennan leik í venjulegum leiktíma, ” sagði Helgi Sigurðsson þjálfari Fylkis eftir leik kvöldsins. 

 

Úr einhverjum sjónarhornum leit út eins og Höskuldur Gunnlaugsson hafi verið rangstæður í 3-2 markinu. Helgi var þó ekki með gott sjónarhorn á þetta og segist hafa séð þetta. Það er hinsvegar ekki hægt að neita því að þetta mark breytti leiknum. 

 

„Ég gat ekkert séð það. Það er hinsvegar agalegt ef svo er. Maður verður að reyna að treysta þessum dómurum og þeir verða að standa sína pligt. Ef það reynist rétt, þá er það náttúrulega hræðilegt fyrir okkur. Við fáum ekkert fyrir það að vera að væla yfir því núna. Við förum bara að einblína á KA á sunnudaginn. Við erum úr í bikarnum, ósanngjarnt að mér finnst en svona er fótboltinn.” 

 

Blikar enda á að skora fjórða markið í tómt mark en það nokkrir varnarmenn Fylkis voru sekir um einstaklingsmistök. Helgi var samt heilt yfir ánægður með margt í leik kvöldsins. 

 

„Það kemur náttúrulega bara af því að við erum að reyna að sækja. Það kemur langur bolti fram sem við misreiknum eitthvað en að öðru leyti er ég bara stoltur af strákunum. Í 90 mínútur erum við að fá miklu betri færi. Það reynir miklu meira á Gulla en okkar markmann. Þess vegna er ég líka svo svekktur að ná ekki að klára þetta í venjulegum leiktíma, algjör óþarfi að fara með þetta í framlenginginu.” 

 

Kolbeinn Birgir Finnson er á láni frá Brentford en er hann er að leika stórt hlutverk hjá Fylki í sumar. Það var fyrst talað um að Kolbeinn myndi fara 1. júlí en Helgi er vongóður um að hans kraftar nýtist aðeins lengur í Árbænum. 

 

„Hann nær alveg næsta leik. Við sjáum bara til hvað gerist með hann. Hann er búinn að vera frábær fyrir okkur. Vonandi náum við að halda honum eitthvað lengur.” 

 

Helgi er búinn að gefa Valdimar Þór Ingimundarsyni traustið í sumar. Þessi strákur sem er fæddur árið 1999 er heldur betur búinn að þakka traustið á móti Blikum og er búinn að skora 2 mörk í báðum leikjunum gegn Blikum. 

 

„Hann er bara búinn að taka mikið skref fram á við. Hann er búinn að vera þolinmóður og búinn að sýna afraksturinn af því. Hann er búinn að vera einbeittur. 1 á 1 er hann frábær, hann er með mikinn hraða og  hann er farinn að skora mörk. Í dag er hann bara einn af betri sóknarmönnum deildarinnar það er ljóst.” 

 

Höskuldur:Held að hann hafi alveg verið með þetta

„Mér fannst þetta vera fram og tilbaka fyrstu 90 mínúturnar. Fylkir er frábært lið og þetta var svolítið kaflaskipt. Við vorum bara staðráðnir í að halda okkar uppstillingu og trúa því bara að við myndum sigla þessu í framlengingu. Þetta fyrst og fremst bara hausinn að geta klárað þetta,” sagði Höskuldur Gunnlaugsson hetja Blika eftir leik kvöldsins.  

 

Höskuldur var maður leiksins í kvöld og fer líklegast ansi sáttur á koddann. Hann fiskaði víti Blika í fyrra hálflleik og síðan kláraði hann leikinn með tveimur mörkum í seinni hálfleik.

 

„Tilfinningin er bara mjög sæt. Bikarleikir eru alltaf extra skemmtilegir. Sérstaklega þegar þetta fer í framlengingu og verður smá svona drama.” 

 

Í myndavélunum leit út eins og Höskuldur hafi verið rangstæður í markinu sem kom Blikum yfir 3-2. Hann vill þó ekki sinna starfi dómara og treysti dómgreind Einars Inga. 

 

„Það held ég. Það er annars ekki mitt hlutverk og dæma ég held að hann hafi verið alveg með þetta.”

 

Blikar eru í harðri toppbaráttu við KR í augnablikinu í Pepsi Max deildinni. Á mánudaginn kemur fara þeir í Vesturbæinn og ættu allir Blikar, leikmenn sem og stuðningsmenn að vera ansi spenntir fyrir þeim leik.  

 

„Þetta er bara geggjað sumar. Það er nóg af keppnum, við erum í þrem keppnum og við viljum vera í þeim öllum sem lengst.” 

 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira