Innlent

Stöðvaði gröfu VesturVerks

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Elías S. Kristinsson.
Elías S. Kristinsson.
Landeigandi á Seljanesi á Ströndum, Elías S. Kristinsson, stillti sér upp fyrir framan beltagröfu á Ófeigsfjarðarvegi á þriðjudag og stöðvaði þannig framkvæmdir verkamannsins sem starfaði þar í umboði VesturVerks. Eins og Fréttablaðið greindi frá hóf orkufyrirtækið framkvæmdir á vegi þrátt fyrir kæru sem landeigendur Drangavíkur lögðu fram gegn framkvæmdaleyfi þeirra.

„Hann má nú eiga það, gröfumaðurinn, að hann var ljúfur sem lamb og mjög kurteis. Hann hætti strax störfum eftir að ég sagði honum að ég myndi ekki færa mig af veginum,“ sagði Elías í samtali við Fréttablaðið í dag. Hann brunaði beint á staðinn á þriðjudagskvöld eftir að hann fékk veður af framkvæmdunum.

„Mér finnst þetta alveg ótrúleg ósvífni, að daginn eftir að það kemst upp að þeir eigi ekki stóran hluta af vatnssvæðinu sem þeir þurfa, þá hefji þeir framkvæmdir,“ segir Elías. „Allir eðlilegir menn hefðu ákveðið að bíða eftir að fá úr þessum málum skorið. Þetta sýnir bara hvað þetta er ósvífið lið.“

Elías segir verktakann á gröfunni þá hafa staðfest að Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdastjóri VesturVerks, hafi sent hann af stað í framkvæmdirnar kvöldið áður, sama dag og landeigendur lögðu kæruna fram. „Ætlun þeirra er að eyðileggja eins mikið og hægt er í sumar svo að það verði ekki hægt að hætta við virkjunina. Þessir menn hugsa bara um peninga og hlutabréfin sín og svífast bara einskis.“




Tengdar fréttir

Landamerki frá 1890 koma Vesturverki í opna skjöldu

Forsvarsmenn fyrirtækisins Vesturverks sem hefur haft Hvalárvirkjun á Ströndum í undirbúningi undanfarinn rúman áratug lýsa furðu sinni yfir landamerkjum í Ófeigsfirði sem landeigendur meirihluta Drangavíkur í Árneshreppi minntu á í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×