Galtárlón var ólíkt öðrum þekktum jökullónum eins og Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi og þeim sem hafa myndast undanfarin ár við sporð jökla sem hopa vegna hnattrænnar hlýnunar. Lón eins og Jökulsárlón hafa myndast úr bráðnunarvatni í djúpum geilum sem jöklar hafa sorfið í landslagið og skilið eftir sig þegar þeir hopuðu. Bráðnunarvatn af völdum jarðhita myndaði aftur á móti Galtárlón.
Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlifræðingur, fór um svæðið 8. júní og þá var lónið horfið. Eftir stóðu leir-, vatns- og gufuhverir á lónsbotninum.
Fyrstu upplýsingar um Galtárlón eru frá um 1940 og segir Magnús Tumi misjafnt hversu hátt vatnið hafi staðið í því síðan. Þegar frá er talið vatn í sigkatli Bárðarbungu sé Galtárlón og önnur lón á svæðinu hæstu vötn á Íslandi, um 1.700 metrum yfir sjávarmáli.
Ljóst sé að lónið hafi horfið áður. Þannig hafi það ekki verið til staðar frá 1998 til 2005.
„Þannig að þessi hegðun að það tæmist er eitthvað sem við höfum séð áður,“ segir hann.

„Vatnið lekur með fram fjallshlíðinni og finnur sér þar útrás. Svo gerist það einstaka sinnum að þessi rás nær alveg niður á botn lónsins og þá tæmist það,“ segir hann.
Allar líkur séu á því að lónið fyllist aftur á einhverjum tímapunkti. Rásin sem tæmir vatnið geti haldist opin í einhver ár en lokist síðan og vatn byrji þá aftur að safnast í lónið.
Hvarf lónsins segir Magnús Tumi dæmi um þann síbreytileika sem hafi verið ástæða þess að Vatnajökulsþjóðgarður sé nú kominn á heimsminjaskrá UNESCO. Tilkynnt var um skráninguna í síðustu viku.
„Þetta er dæmi um þá lifandi náttúru sem þar er,“ segir hann.

