Bókunarfyrirtækið Guide to Iceland hagnaðist um 795 milljónir króna eftir skatt í fyrra. Hagnaðurinn árið á undan var 690 milljónir króna. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem Mbl greindi frá fyrir helgi.
Xiaochen Tian, framkvæmdastjóri Guide to Iceland, sagði að stjórn félagsins hefði ákveðið að greiða 563 milljónir króna í arð. Stjórnarformaður Guide to Iceland er Ingólfur Abrahim Shahin sem á rúmlega 55 prósenta hlut í félaginu.
Ingólfur fær því rúmlega 300 milljónir króna í arðgreiðslur fyrir síðasta ár. Þetta er annað árið í röð sem Ingólfur greiðir sér 300 milljóna króna arð út úr fyrirtækinu.
Athygli vakti í sumar þegar Guide to Iceland sagði upp ellefu starfsmönnum og starfsfólk var látið taka á sig launalækkun. Var um að ræða viðbrögð vegna gjaldþrots WOW air.
Stundin hefur fjallað töluvert um málefni starfsfólks Guide to Iceland. Í frétt miðilsins fyrir ári var greint frá því að starfsfólkinu væri gert að
setja upp sérstakt forrit á tölvum sínum sem gerir yfirmönnum kleift að fylgjast náið með því sem starfsmenn gera í tölvum sínum á vinnutíma. Gætti nokkurrar óánægju meðal starfsmanna með eftirlitið.
Þá sagði ritstjóri vefblaðsins Guide to Iceland Now að Ingólfur hefði rekið hana úr starfi þegar hún neitaði að nýta frítíma sinn í að skrifa fréttir fyrir fyrirtækið.
Ingólfur, sem er 38 ára, keypti sér fasteign á síðasta ári og var hún ekki af verri endanum. Um er að ræða 433 fermetra einbýlishús við Fjölnisveg 11 en húsið hefur meðal annars verið í eigu Hannesar Smárasonar, Skúla Mogensen og Guðmundar Kristjánssonar í Brim.

