Ný þyrla landhelgisgæslunnar EIR kom til landsins í gær, en um er að ræða eina af tveimur nýjum þyrlum sem eru hluti af bráðabirgðaendurnýjun gæslunnar. Seinni vélin GRÓ er væntanleg til landsins á næstu vikum.
Flugstjóri landhelgisgæslunnar segir að um 20-25 ára hönnunarmunur sé á vélunum. Vélarnar sem gæslan hefur verið með í notkun fóru að fljúga árið 1978 en þessi hóf flug árið 2001.
„Þetta er mjög mikil breyting, fer úr „analog“ kerfi í „digital“ kerfi sem margfaldar öryggi. Þær fljúga 20 prósent hraðar og bera 20 prósent meira og eru öruggari og betri á allan hátt,“ sagði Björn Brekkan Björnsson, flugstjóri hjá Landhelgisgæslunni.
Meðal annars fylgir hinni nýju vél, hitamyndavél að framan sem hjálpar til við leit á fólki í vatni.

„Já það er búið að uppfæra öll siglingarkerfi þannig að við getum framkvæmt öll þau aðflug sem við þurfum að gera. Þær bera meira og fara hraðar þannig viðbragðstíminn er styttri. Allur búnaður í vélunum er uppfærður þannig við fáum allan nýjasta búnað sem þarf til leitar og björgunar sem er mikil breyting frá því í gömlu vélunum,“ sagði Björn.
Áður en þyrlan fer í útköll þarf að þjálfa flugmenn og flugvirkja þannig að hin nýja vél mun ekki sjást á lofti fyrr en eftir nokkrar vikur.