Mikilvægur en naumur sigur City | Aron Einar og Jóhann Berg í tapliðum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guardiola fagnar marki Mahrez.
Guardiola fagnar marki Mahrez. vísir/getty
Manchester City er komið á topp ensku úrvalsdeildarinnar, að minnsta kosti þangað til á morgun, eftir 1-0 sigur á Bournemouth í dag.

Það tók tíma fyrir City að brjóta niður varnarmúr Bournemouth en að endingu fundu þeir leiðina. Það gerði Riyad Mahrez á 55. mínútu og lokatölur 1-0.

City er með tveggja stiga forskot á Liverpool sem leikur á morgun en þeir heimsækja þá granna sína í Everton. Bournemouth er í tólfta sæti deildarinnar.

Aron Einar Gunnarsson spilaði allan leikinn er Cardiff tapaði 2-0 fyrir Wolves á útivelli. Mörkin skoruðu þeir Diogo Jota á 16. mínútu og Raul Jimenez á 18. mínútu.

Það hefur gengið erfiðlega hjá Aroni og félögum að undanförnu en þeir eru í falsæti sem stendur. Þeir sitja í 18. sætinu, tveimur stigum frá Southampton sem er sæti ofar en Wolves er í sjöunda sætinu.

Jóhann Berg Guðmundsson kom inn á í hálfleik er Burnley tapaði 3-1 fyrir Crystal Palace á heimavelli. Palace komst í 3-0 með mörkum frá sjálfsmarki Phil Bardsley og sitt hvoru markinu frá framherjunum Michy Batshuayi og Wilfried Zaha.

Í uppbótartíma minnkaði Ashley Barnes metin fyrir Burnley en þeir eru í sextánda sæti deildarinnar og eru fimm stigum fyrir ofan falldrauginn. Palace er komið upp í þrettánda sæti deildarinnar.

Huddersfield náði ekki að fylgja eftir góðum sigri í síðustu umferð en þeir töpuðu 1-0 fyrir Brighton í fallbaráttuslag. Eina markið gerði Florin Andone ellefu mínútum fyrir leikslok. Brighton í fimmtánda sætinu en Huddersfield á botninum.

Úrslit dagsins:

Tottenham - Arsenal 1-1

Bournemouth - Man. City 0-1

Brighton - Huddersfield 1-0

Burnley - Crystal Palace 1-3

Man. United - Southampton 3-2

Wolves - Cardiff 2-0

17.30 West Ham - Newcastle

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira