Enski boltinn

Donny van de Beek snýr við blaðinu og fer til Spánar

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Donny van de Beek hefur oftar en ekki verið haldið utan vallar. 
Donny van de Beek hefur oftar en ekki verið haldið utan vallar.  getty / vísir

Martraðartími Donny van de Beek hjá Manchester United virðist vera á enda og hann er sagður á leið til spænska félagsins Girona. 

Talið er að Girona greiði lágmarksupphæð, minna en milljón punda, fyrir leikmanninn. Eftir árangri gæti sú upphæð hækkað í tuttugu milljónir en líklegast verða það um fimm milljónir.

Manchester United mun svo fá stóran hluta af næstu sölu leikmannsins.

Donny van de Beek mun ekki hugsa fallega til baka á árin hjá Manchester United en vonbrigði á vonbrigði ofan hafa einkennt tíma hans hjá félaginu síðan hann kom frá Ajax árið 2020.

Hann kom aðeins við sögu í 62 leikjum og var tvisvar lánaður út, til Everton og Eintracht Frankfurt.

Í Frankfurt fékk hann heldur ekki mörg tækifæri, spilaði aðeins átta deildarleiki og var skilinn út undan úr leikmannahópi liðsins í Sambandsdeild Evrópu.

Girona gæti hins vegar glætt ferilinn nýju lífi en liðið er í leit að miðjumanni eftir að Aleix Garcia fór frá þeim fyrr í sumar til Bayer Leverkusen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×