Enski boltinn

Nafn Liverpool skrifað í skýin eða jafnvel bara á bikarinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah fagnar sigurmarkinu á Anfield í gær.
Mohamed Salah fagnar sigurmarkinu á Anfield í gær. Getty/Robbie Jay Barratt
Liverpool hafði heppnina með sér í gær. Því getur enginn mótmælt. Þetta var aftur á móti ekki í fyrsta sinn sem hlutirnir falla með Liverpool á tímabilinu og knattspyrnusérfræðingar á BBC og Sky Sport hafa verið duglegir að benda á það í greiningunni sinni á stöðunni eftir leik Liverpool og Tottenham í gær.

Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool, viðurkennir fúslega að heppnin hafi verið með Liverpool á þessu tímabili en bendir á að það gæti fengið leikmenn Liverpool til að trúa því að nafni Liverpool sé skrifað í skýin eða jafnvel bara á bikarinn.





Phil McNulty á BBC tók það líka saman hvernig hlutirnir hafa dottið með Liverpool liðinu á tímabilinu og honum finnst líka eins og örlögin séu líka á bandi Liverpool liðsins.

„Liverpool hefur sýnt gæði, þrautseigju, staðfestu og þol síðan í ágúst. Þess vegna er liðið á toppnum þegar sex leikir eru eftir. Stundum hafa aftur á móti aðrir kraftar séð til þess að stuðningsfólk Liverpool hefur fagnað á götunum í kringum Anfield. Það skilur eftir stóru spurninguna hvort örlögin séu að leiða Liverpool í átt að fyrsta titlinum í 29 ár,“ skrifaði Phil McNulty á vef breska ríkisútvarpsins og hélt áfram.

„Liverpool átti ekki skilið að fá þessi þrjú stig en liðið tekur þeim fagnandi. Manchester City er áfram á miklu skriði en sú tilfinning að þetta muni falla með Liverpool er alltaf að verða sterkari og sterkari,“ skrifaði McNulty og benti síðan á mörg dæmi þar sem lukkan var í búningi Liverpool.

Þar bendir hann á vítaspyrnuna sem Riyad Mahrez klikkað á í lok markalausa leiksins á Anfield, markmannsmistökin hans Jordan Pickford sem færði Liverpool 1-0 sigur á Everton á 96. mínútu og mistök Julian Speroni, markvarðar Crystal Palace í 4-3 sigri Liverpool á Palace í janúar.

Við þetta bætist það síðan að vinna Tottenham á ótrúlega klaufalegu sjálfsmarki á 90. mínútu á Anfield í gær.





„Allt þetta safnast saman með öllum hinum frábæru frammistöðum Liverpool á leiktíðinni og býr til pakka sem getur unnið ensku úrvalsdeildina,“ skrifaði Phil McNulty. Það má lesa pistil hans hér.

Skysports sjónvarpsstöðin notast mikið við gömlu brýnin og erkifjendurna Jamie Carragher og Gary Neville við leik- og stöðugreiningar sína.

Gary Neville kom með enn eitt dæmið um að hlutirnir hafi fallið með Liverpool þegar hann nefndi sigurmarkið á móti Fulham sem kom úr vítaspyrnu undir lokin.

„Sagan segir manni það að til að vinna titilinn þá þarftu að skora sigurmörk í lokin og Liverpool hefur gert það oft á þessu tímabili.,“ sagði Carragher.





Jamie Carragher segist vera farinn að trúa því að Liverpool geti hreinlega endað 29 ára bið eftir meistaratitlinum og Gary Neville, fyrrum leikmaður Manchester United, er mjög spenntur fyrir lokasprettinum á milli Liverpool og Manchester City.

„Liverpool stuðningsfólkið missti sig í lokin og maður sá allar tilfinningarnar þegar Jürgen Klopp fagnaði með Kop-stúkunni. Það yrði ótrúlegur staður til að vera á ef Liverpool vinnur titilinn,“ sagði Gary Neville.

„Liverpool hefur ekki verið upp á sitt besta í síðustu leikjum, ekki í þessum leik á móti Tottenham og ekki á móti Fulham. Þeir náðu hins vegar í úrslit og liðið er í góðri stöðu. Það er samt mikið eftir ennþá. Liðið mun vinna einn eða tvo auðvelda sigra af þessum sex sem liðið á eftir en hinir leikirnir verða spennuþrungnir eins og þessu. Þetta var bara byrjunin á endasprettinum,“ sagði Neville.

Liverpool er með tveggja stiga forskot þegar sex leikir eru eftir en Manchester City á einn leik inni á toppliðið.

Carragher er reyndar eins litaður og þeir verða og þurfti að biðjast afsökunar á því að hafa fagnað sigurmarki Liverpool í beinni. Hann grínaðist með það að einn stuðningsmanna Liverpool liðsins hafi komist í hljóðnemann hans.

„Stundum í sumum keppnum þá ferðu að trúa að því að nafn liðsins þíns sé á bikanum. Liverpool hafði heppnina með sér í dag og við munum líka eftir Merseyside derby leiknum þegar Origi skoraði. Tottenham var líklegra til að vinna leikinn í seinni hálfleiknum en þetta var einn af þessum dögum fyrir Liverpool,“ sagði Jamie Carragher. Það má lesa greiningu Carragher og Neville með því að smella hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×