Fótbolti

Styður Choupo-Moting: Hef klúðrað miklu fleiri færum en þú í vetur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Choupo-Moting bjargar á línu fyrir Strasbourg.
Choupo-Moting bjargar á línu fyrir Strasbourg. vísir/getty
Eric Maxim Choupo-Moting, framherji Paris Saint-Germain, kom sér í fréttirnar með ótrúlegu klúðri í leik gegn Strasbourg í frönsku úrvalsdeildinni í gær.



Choupo-Moting byrjaði reyndar vel og kom PSG yfir á 13. mínútu. Strasbourg jafnaði á 26. mínútu og skömmu síðar fékk Choupo-Moting algjört dauðafæri til að skora sitt annað mark. Það tókst þó ekki betur en svo en hann stoppaði boltann á marklínunni og kom Strasbourg til bjargar.





Myndband af klúðri Choupo-Motings fór eins og eldur í sinu um netheima í gær enda ótrúlegt atvik.

Strasbourg komst yfir á 38. mínútu en Thilo Kehrer jafnaði fyrir PSG átta mínútum fyrir leikslok. Lokatölur 2-2. Með sigri hefði PSG tryggt sér Frakklandsmeistaratitilinn.

Kylian Mbappé kom inn á fyrir Choupo-Moting eftir klukkutíma. Eftir leikinn setti franska ungstirnið inn færslu á Instagram með hughreystandi skilaboðum til félaga síns.

„Leitt með titilinn í kvöld. Við reyndum hvað við gátum. Ég styð Choupo-Moting. Ég hef klúðrað miklu fleiri færum en þú á tímabilinu. Við stöndum saman sem lið og styðjum þið allt til enda,“ skrifaði Mbappé. 



Choupo-Moting kom nokkuð óvænt til PSG fyrir tímabilið. Á síðasta tímabili lék hann með Stoke City sem féll úr ensku úrvalsdeildinni.

Kamerúnski framherjinn hefur verið í aukahlutverki hjá PSG í vetur. Hann hefur leikið 26 leiki í öllum keppnum og skorað þrjú mörk.

Þrátt fyrir jafnteflið í gær á PSG sigurinn vísan í frönsku deildinni. Liðið er með 20 stiga forskot á Lille og á auk þess leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×