Erlent

Sílesk kona á Íslandi segir yfirstéttina hafa hertekið stjórnmálin

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Alondra Silva segir sársaukafullt að fylgjast með atburðarásinni.
Alondra Silva segir sársaukafullt að fylgjast með atburðarásinni. Vísir/Friðrik
Sílemenn hafa mótmælt stjórnvöldum undanfarna daga og var tilkynning um hækkun fargjalda í neðanjarðarlestarkerfi höfuðborgarinnar Santiago kornið sem fyllti mælinn. Hætt hefur verið við verðhækkunina en áfram er ójöfnuði í landinu mótmælt.

Alondra Silva, sílesk kona búsett á Íslandi, segir almenna borgara orðna þreytta á ofríki yfirvalda og misskiptingu í samfélaginu. „Jafnvel þótt við búum ekki lengur við einræði líður manni eins og yfirstéttin hafi hertekið stjórnmálin síðan þá.“

Mótmælendur hafa gert áhlaup á verslanir og í nótt fórust fimm eftir að kveikt var í fataverksmiðju í Santiago. Alondra segist ekki hlynnt því ofbeldi sem hefur verið beitt. Segist þó hafa skilning á reiði mótmælenda. Erfitt sé að fylgjast með atburðunum. „Það er sársaukafullt. Ég hef verið miður mín síðan þetta hófst.“

Hún segir yngri kynslóðina meðvitaða um möguleika sína á því að mótmæla, öfugt við eldri kynslóðir sem áttu hættu á því að vera myrt fyrir mótmæli gegn einræðisherranum Pinochet.

„Ég held að ástandið muni ekki batna ef hersveitir verða sendar út á göturnar líkt og í tíð einræðisstjórnarinnar. Ég get séð fyrir mér að það yrði sársaukafullt fyrir foreldra mína. Þeirra kynslóð er enn í sárum. Og nú er eins og við höfum farið aftur í tímann, fjörutíu ár.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×