Flugvél Icelandair á leið til Kaupmannahafnar var snúið við til Keflavíkur í morgun vegna veikinda flugfreyju um borð. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair fundu fleiri flugfreyjur í fluginu fyrir óþægindum.
Jens Þórðarson framkvæmdarstjóri rekstrarsviðs Icelandair segir í samtali við Vísi að ein flugfreyja hafi veikst illa í fluginu og að læknisráði hafi verið ákveðið að snúa vélinni við til Keflavíkur.
Flugfreyjan leitaði á sjúkrahús við lendingu en aðspurður segir Jens að mögulega hafi fleiri flugfreyjur úr fluginu farið með henni á spítalann.
„Einhverjar aðrar fundu fyrir óþægindum en það er auðvitað mikið álag ef einhver veikist,“ segir Jens.
Sjá einnig: Veikindi starfsmanna Icelandair: „Mörg mismundandi tilvik sem gerast í mörgum vélum við mismunandi aðstæður“
Flugvélin tók á loft frá Keflavík í morgun og var eins og áður segir á leið til Kaupmannahafnar. Vélin hafði verið tæpan klukkutíma í loftinu þegar henni var snúið við. Flogið var með farþega flugvélarinnar til Kaupmannahafnar í annarri vél seinnipartinn í dag.
Ekki fengust upplýsingar um það hvers kyns veikindi flugfreyjan sem veiktist glímdi við en Jens segir aðspurður að hún sé á batavegi.
Fjallað hefur verið um veikindi flugliða, og þá sérstaklega starfsfólks Icelandair, síðustu ár. Árið 2016 var greint frá því að flugfélagið hefði gripið til umfangsmikilla aðgerða vegna þess hve tilkynningum um veikindi starfsfólks um borð í flugvélum flugfélagsins hafði fjölgað mikið. Rannsóknarnefnd flugslysa var til að mynda fengin til að aðstoða flugfélagið með því að senda áhafnarmeðlimi í læknisskoðanir.
Flugvél Icelandair snúið við vegna veikinda flugfreyju
Tengdar fréttir
Aðeins fastráðnir starfsmenn Icelandair fá heyrnarsíur vegna hávaða
Sérútbúnar heyrnarsíur aðeins smíðaðar fyrir fastráðna flugliða Icelandair.
Veikindi starfsmanna Icelandair: „Mörg mismundandi tilvik sem gerast í mörgum vélum við mismunandi aðstæður“
Axel F. Sigurðsson hjartalæknir og trúnaðarlæknir Icelandair segir að veikindi flugliða séu þekkt vandamál og hafi verið þekkt í áratugi. Það sé hins vegar verið að skoða það núna hvers vegna veikindi flugliða Icelandair hafi aukist seinustu mánuði.
Gripið til aðgerða vegna veikinda starfsfólks um borð í vélum Icelandair
Icelandair hefur gripið til umfangsmikilla aðgerða eftir aukningu í tilkynningum á veikindum starfsfólks um borð í vélum flugfélagsins.