Erlent

May stóð af sér vantrauststillögu

Samúel Karl Ólason skrifar
Tillaga Corbyn var lögð fram í kjölfar þess að Brexit-samningur May var felldur af þingmönnum í gær.
Tillaga Corbyn var lögð fram í kjölfar þess að Brexit-samningur May var felldur af þingmönnum í gær. EPA/FACUNDO ARRIZABALAGA
Vantrauststillaga Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, gegn ríkisstjórn Theresu May var felld á breska þinginu nú fyrir skömmu. Alls greiddu 325 þingmenn atkvæði gegn tillögunni og 306 greiddu atkvæði með henni.

Tillaga Corbyn var lögð fram í kjölfar þess að Brexit-samningur May var felldur af þingmönnum í gær. Ríkisstjórn May galt afhroð í atkvæðagreiðslu um útgöngusamning hennar í þinginu í gærkvöldi. Samningurinn var felldur með 230 atkvæða mun og greiddi fjöldi þingmanna Íhaldsflokksins atkvæði gegn honum.



Þingmenn annarra stjórnarandstöðuflokka, nema þingmenn DUP frá Norður-Írlandi, studdu vantrauststillöguna. Þó áttu leiðtogar stjórnarandstöðunnar ekki von á því að hún yrði samþykkt, þar sem Íhaldsflokkur May er með meirihluta á þinginu og þingmenn DUP hafa lýst yfir stuðningi við ríkisstjórnina, þó þeir hafi greitt atkvæði gegn samningnum.

Hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir úrgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu er nú óljóst. Enn stendur til að Brexit eigi sér stað þann 29. mars.

Theresa May ætlar að ræða við aðra stjórnmálaleiðtoga um næstu skref og hvað samningur þurfi að fela í sér svo hann hljóti samþykki þingmanna. Forsvarsmenn Evrópusambandsins hafa sagt mikilvægt að Bretar skýri stöðuna eins fljótt og auðið er. Þeir hafa gefið í skyn að mögulegt sé að breyta samningnum að einhverju leyti en það verði erfitt.

Í kjölfar atkvæðagreiðslunnar sagði May að áðurnefndir fundir myndu hefjast í kvöld. Aðrir stjórnmálaleiðtogar sem tóku einnig til máls sögðu mikilvægt að ríkisstjórn May opinberaði að úrsögn Bretlands úr ESB færi ekki fram án samnings.


Tengdar fréttir

Þingmenn felldu samning May

Breskir þingmenn munu greiða atkvæði um Brexit samning Theresu May, forsætisráðherra Bretlands um klukkan sjö í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×