Handbolti

Hvíldardagur hjá strákunum í München í dag

Tómas Þór Þórðarson í München skrifar
Strákarnir fá aðeins að safna kröftum fyrir loka átökin í dag.
Strákarnir fá aðeins að safna kröftum fyrir loka átökin í dag. vísir/tom
Strákarnir okkar í íslenska landsliðinu í handbolta frá kærkominn hvíldardag í dag eftir tvo leiki í röð á móti Spáni og Barein en fyrsti sigurinn datt í hús í gær þegar að lærisveinum Arons Kristjánssonar í Barein var pakkað saman með 18 marka mun.

Okkar menn hvíla lúin bein á glæsilegu hóteli sínu í München í dag og munu væntanlega fara á einn eða tvo myndbandsfundi þar sem að línurnar verða lagðar fyrir leikinn á móti Japan. Strákarnir hans Dags Sigurðssonar komu verulega á óvart á móti Spáni í gær og sýndu að þeir eru betri en menn halda.

Hvíldin er mjög mikilvæg þegar að spilað er svona þétt en næst eiga okkar menn leik klukkan 15.30 á morgun að staðartíma á móti Japan. Þeir fá svo ríflega sólarhrings langa pásu áður en kemur að því sem verður líklega úrslitaleikur um sæti í milliriðli á móti Makedóníu á fimmtudaginn.

Makedóníumenn eru ekki jafnheppnir því þeir eiga kvöldleikinn á morgun gegn Spáni og koma svo inn í leikinn á móti Ísland eftir um fimmtán klukkustunda hvíld.

Guðmundur Guðmundsson og þrír leikmenn liðsins munu sitja fyrir svörum á blaðamannafundi á liðshótelinu í München en hann hefst klukkan 12.00 að íslenskum tíma og verður lýst beint á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×