Erlent

Dauðs­föll og ringul­reið í Þýska­landi og Austur­ríki vegna snjó­þyngsla

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hermenn losa snjó af þaki grunnskóla í Bæjaralandi.
Hermenn losa snjó af þaki grunnskóla í Bæjaralandi. vísir/epa
Hátt viðbúnaðarstig er nú á Alpasvæðum Þýskalands og Austurríkis vegna gríðarlegra snjóþyngsla en að minnsta kosti tólf hafa látist vegna veðursins.

Á meðal hinna látnu er níu ára gamall drengur sem lést þegar tré féll á hann í bænum Aying, skammt frá München, í gær. Þá létust tveir Þjóðverjar í snjóflóði í austurrísku Ölpunum um liðna helgi en aðrir sem hafa látist hafa dáið í bílslysum eða þegar tré hafa fallið á þá.   

Að því er fram kemur í frétt Guardian um málið hafa hermenn verið kallaðir út, bæði í Austurríki og Þýskalandi, til að aðstoða almenning.

300 hermenn voru þannig sendir til þriggja sýslna í Bæjaralandi í dag þar sem lýst hefur verið yfir neyðarástandi vegna snjósins. Aðstoðuðu hermennirnir viðbragðsaðila við að fjarlægja snjó af húsþökum þar sem óttast var að þökin myndu gefa eftir undan þyngslunum.

Þá voru skólar lokaðir í dag og lestarferðir lágu niðri þar sem teinarnir voru ófærir. Þá var hátt í 100 flugum aflýst í München í dag.  

Samkvæmt veðurspám á að snjóa meira á svæðunum um helgina en fjöldi Íslendinga er staddur í München til að fylgjast með íslenska handboltalandsliðinu keppa á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×