Erlent

Hlýnun hafsins hraðari og meiri en talið var

Kjartan Kjartansson skrifar
Langstærsti hluti þeirrar umframorku sem aukin gróðurhúsaáhrif fanga hefur endað í heimshöfunum.
Langstærsti hluti þeirrar umframorku sem aukin gróðurhúsaáhrif fanga hefur endað í heimshöfunum. Vísir/EPA
Höf jarðar hlýna nú allt að 40% hraðar að meðaltali en talið var í síðustu stóru vísindaskýrslu Sameinuðu þjóðanna. Hækkandi hiti í sjónum er þegar byrjaður að drepa vistkerfi, hækka yfirborð sjávar og efla fellibyli.

Þetta er niðurstaða nýrrar samantektarrannsóknar sem birtist í vísindaritinu Science í gær. Hún byggist ekki á nýjum athugunum heldur tekur hún saman niðurstöður þriggja rannsókna á sjávarhita. Vísindamennirnir sem stóðu að henni telja að hitinn í hafinu hafi slegið met í nokkur ár í röð.

„2018 verður hlýjasta árið í höfum jarðar frá því að mælingar hófust eins og 2017 var hlýjasta árið og 2016 var hlýjasta árið,“ segir Zeke Hausfather, sérfræðingur hjá loftslagsrannsóknahópnum Berkeley Earth við New York Times.

Stærsti hluti þeirrar hlýnunar sem hefur orðið á jörðinni vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa af völdum losunar manna á lofttegundum eins og koltvísýringi og metani hefur endað í sjónum. Áætlað er að hafið hafi drukkið í sig um 93% orkunnar sem aukin gróðurhúsaáhrif hafa valdið frá iðnbyltingunni. Fyrir vikið hefur ekki hlýnað eins mikið uppi á yfirborðinu. Höfin eru talin áreiðanlegri mælikvarði á hnattræna hlýnun þar sem þau eru ekki háð sömu dutlungum veðurbrigða og sveiflna og hiti á yfirborðinu.

„Í reynd eru höfin að bjarga okkur frá gríðarlegri hlýnun núna,“ segir Malin L. Pinsky, aðstoðarprófessor í vistarfræði við Rutgers-háskóla.

Hitinn sem höfin hafa dregið í sig þýðir að jafnvel þó að menn hættu alfarið losun gróðurhúsalofttegunda héldi hnattræn hlýnun áfram um nokkra hríð á meðan loftslagið næði nýju jafnvægi.

Hefur gríðarleg áhrif á menn og dýr

Afleiðingar hlýnunar hafsins eru margvíslegar. Með vaxandi hita eru viðkvæmar sjávarlífverur eins og kórallar í hættu, vatnið þenst út í hitanum og yfirborð sjávar hækkar og fellibylir hafa úr meiri orku að spila og geta þannig orðið öflugri en áður.

Menn eru þannig í aukinni hættu vegna náttúruhamfara auk þess sem milljónir reiða sig á vistkerfin sem kórallar halda uppi.

Með rannsókninni nú reyndu vísindamennirnir að komast fyrir óvissu sem plagaði eldri athuganir á hita í hafinu. Skoðuðu þeir þrjár rannsóknir sem taldar eru taka best tillit til skekkju í eldri mælitækjum.

Niðurstaða þeirra var að hlýnunin í hafinu hefði verið töluvert meiri en áætlað var í skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC) frá 2014. Hún er nú í samræmi við það sem loftslagslíkön hafa gefið til kynna.

Mest hefur hlýnað í efstu lögum hafsins og telja vísindamennirnir að hún hafi hert á sér undanfarna tvo áratugi. Í gestagrein sem höfundar rannsóknarinnar skirfa í Carbon Brief segja þeir að um 65% umframhlýnunarinnar sem menn hafi valdið hafi safnast fyrir í efstu 700 metrum hafsins, stærstur hluti hitans sem út af stendur sé í efstu tvö þúsund metrunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×