Erlendur ferðamaður mældist á dögunum á 164 kílómetra hraða á Reykjanesbraut. Fékk hann 240 þúsund króna sekt vegna hraðakstursins að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. Hámarkshraði á Reykjanesbraut er 90 kílómetra á klukkustund.
Undanfarna daga hefur lögreglan á Suðurnesjum kært ellefu ökumenn fyrir of hraðan akstur.
„Þá voru allmargir ökumenn sektaðir fyrir að tala í síma án handfrjáls búnaðar meðan á akstri stóð og skráningarnúmer voru fjarlægð af fáeinum bifreiðum sem voru óskoðaðar eða ótryggðar í umferðinni,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.
Fékk 240 þúsund króna sekt vegna hraðaksturs
Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
