Erlent

Segir björn hafa passað sig í tvo daga

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Íbúar Norður-Karólínu fylgdust grannt með leitinni að Casey Hathaway, sem var týndur í tvo sólarhringa.
Íbúar Norður-Karólínu fylgdust grannt með leitinni að Casey Hathaway, sem var týndur í tvo sólarhringa. Skjáskot
Þriggja ára drengur, sem fannst í skóglendi eftir tveggja daga leit í Norður-Karólínu, segist hafa lifað þrekraunina af þökk sé birni sem veitti honum félagsskap í frostinu.

Leitarflokkar fundu drenginn, Casey Hathaway, á fimmudag eftir að þeim barst tilkynning um barnsgrát í Craven-sýslu. Drengurinn var kaldur og blautur en að öðru leyti við góða heilsu. Þegar Hathaway týndist síðastliðinn þriðjudag, eftir að hafa verið úti að leika sér með tveimur öðrum börnum, voru aðstæður til leitar svo erfiðar að kalla þurfti leitarflokkana til baka meðan beðið var eftir því að veðrinu slotaði.

Vitað var að drengurinn var ekki klæddur fyrir frosthörkurnar og hvassviðrið sem var í Craven-sýslu um miðja síðustu viku. Því var allt kapp lagt á að finna Hathaway, hundruð sjálfboðaliða komu að leitinni og stuðst var við dróna, þyrlur, kafara og leitarhunda.

Drengurinn fannst svo í runna á fimmtudaginn eftir um tveggja daga veru í skóginum. Hann var fluttur í skyndi á sjúkrahús þar sem rannsóknir gáfu til kynna að þrátt fyrir allt væri Hathaway við hestaheilsu.

Þegar hann var spurður hvernig í ósköpunum honum hefði tekist að lifa þetta af, einn í skóginum í vitlausu veðri, tjáði Hathaway foreldrum sínum og lögreglu að hann hafi í raun ekki verið einn. Vinalegur svartbjörn (Ursus americanus) hafi veitt honum félagsskap sólarhringana tvo. Hvort sem sú saga er sannleikanum samkvæmt eður ei segjast foreldrar Hathaway vera himinlifandi að fá drenginn sinn aftur í hendurnar, heilan á húfi.

Hér að neðan má sjá umfjöllun héraðssjónvarpsstöðvarinnar WCTI NewsChannel 12 um málið þar sem rætt er við fógeta Craven-sýslu, Chip Hughes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×