Fótbolti

Hrækti á dómarann og ætti að vera á leiðinni í langt bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Edin Dzeko var alveg brjálaður og það gæti haft sínar afleiðingar.
Edin Dzeko var alveg brjálaður og það gæti haft sínar afleiðingar. Getty/Erwin Spek
Bosníumaðurinn Edin Dzeko er ekki að fara spila marga leiki með Roma á næstunni ef satt reynist að hann hafi verið rekinn út af í gærkvöldi fyrir að hrækja á dómara leiksins.

Roma tapaði 7-1 í ítölsku bikarkeppninni fyrir Fiorentina í gær en Edin Dzeko kom þó ekki inná fyrr en í hálfleik. Þá var staðan orðin 3-1 fyrir heimamenn í Fiorentina.

Edin Dzeko fékk rauða spjaldið frá dómara leiksins á 72. mínútu en Fiorentina hafði þá bætt fjórða marki sínu við. Fiorentina skoraði síðan þrjú mörk til viðbótar manni fleiri.





Dzeko reifst við Gianluca Manganiello dómara og virtist svo hrækja á hann. Eftir það reif dómarinn upp rauða spjaldið. Nú er stóra spurningin hvað Manganiello setur í skýrslu sína.

Ef satt reynist að Edin Dzeko hafi fengið rautt spjald fyrir að hrækja á dómara leiksins má búast við löngu banni.

Edin Dzeko var einn af leikmönnum á Ítalíu sem taldir voru líklegir til að fara í nýtt lið í þessum glugga en hann hefur verið hjá Roma síðan 2016.

Edin Dzeko er þekktastur fyrir tíma sinn hjá Manchester City þar sem hann skoraði 50 mörk í 130 leikjum á árunum 2011 til 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×