Átta eru látnir í stórbruna í París höfuðborg Frakklands en eldurinn blossaði upp í átta hæða íbúðarblokk í nótt. Íbúar þurftu margir hverjir að flýja upp á þak eða klifra út um glugga til að komast undan eldinum en óljóst er hvað olli brunanum. Tuttugu og átta eru sárir.
Slökkviliðsmenn eru enn að leita að fólki í brunarústunum auk þess sem eldurinn er ekki að fullu slökktur.
Slökkviliðsmönnum tókst að bjarga hátt í þrjátíu manns af þakinu og þá tókst að rýma aðra hluta hússins áður en eldtungurnar náðu þangað. Byggingin sem um ræðir er á Rue Erlanger í sextánda hverfi, einu af fínni hverfum borgarinnar.

