Innlent

Segir að stokka þurfi upp menntakerfið

Kristín Ýr Gunnarsdóttir skrifar
Nichole Leigh Mosty, innflytjandi og móðir tveggja barna í grunnskóla, segir að breyta þurfi skólakerfinu og halda betur utan um tungumálakennslu barna sem tala fleiri en eitt tungumál. Leggja þurfi áherslu á íslenskukennslu í öllum greinum.

Í fréttum okkar fyrr í mánuðinum sögðum við frá því að brottfall barna innflytjenda úr námi er töluvert eftir fyrsta árið í framhaldsskóla. Lektor við Háskóla Íslands segir íslenskukennslu ófullnægjandi á grunnskólastigi og kannanir sýna að lesskilningur barna með annað tungumál en íslensku sem móðurmál fari hríðversnandi þegar líður á skólagönguna.

Nichole segist upplifa að börnin lendi á milli tungumála, hafi eingöngu yfirborðsþekkingu en þegar námið svo þyngist þá þarf að auka stuðninginn við málskilning og dýpka orðaforða.

„Við þurfum bara stokka upp menntakerfið með tilliti til þessa nemendahóps,“ segir Nichole. Hún segir þetta stórt vandamál sem þarf að skoða heildrænt. „Til dæmis menntun, innan menntakerfisins, erum við að efla orðaforða og málskilning nægilega mikill? Er þetta nógu djúpt fyrir nemendur til að tolla áfram þegar námið þyngist,“ spyr hún. 

Hún bendir líka á að mikilvægt sé að meta stuðninginn heima við. Sum börn eigi ekki íslenskt foreldri eða ættingja og stuðningurinn við heimanámið því lítill sem enginn. Þau börn eigi það til að dragast aftur úr náminu.

„Mér finnst menntakerfið gera það sem það getur. En það er engin spurning að kennarar þurfa meiri aðstoða, betri þekkingu og svigrúm til að vinna öðruvísi með þennan nemendahóp. Ekki spurning,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×