Heilbrigðiseftirlitið samþykkti úrbótaáætlun MS í maí árið 2017. Áætlunin gerði ráð fyrir því að framkvæmdum varðandi hreinsun á fráveituvatni yrði lokið um síðustu áramót.

Á bilinu 100 til 120 þúsund lítrar af mysu renna því í fráveitukerfið og í samtali við Fréttablaðið sagði Leifur Þorkelsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits austurlands, að ekki væri vitað hvaða afleiðingar þetta hefði fyrir lífríkið í Lagarfljóti.
Málið var tekið fyrir á síðasta fundi heilbrigðisnefndar sem hefur áhyggjur áf stöðunni. Gagnrýnir nefndin fyrirtækið í bókun.
„Heilbrigðisnefnd átelur fyrirtækið vegna vanefnda á eigin úrbótaáætlun. Jafnframt leggur nefndin áherslu á að sýni verði tekin af fráveituvatni sem allra fyrst þar sem mælt verður heildarmagn mengandi efna og rennsli frá vinnslunni. Þannig að unnt verði að meta álag á fráveitukerfi og viðtaka,“ segir í bókuninni. Fyrirtækinu er gert að skila inn gögnum fyrir 1. apríl næstkomandi.

Mjólkursamsalan telur að hluti efnanna sem séu í mysunni sé fangaður nú þegar með fituhreinsun en það eigi eftir að prótein- og laktósahreinsa hann.
„Lausn þessa máls er hluti af stærri mynd sem Mjólkursamsalan hefur unnið að af miklum metnaði í samvinnu við Kaupfélag Skagfirðinga. Fyrirtækið Heilsuprótein vinnur hágæða prótein úr ostamysu eins og þeirri sem fellur til á Egilsstöðum. Því er farið að líta á mysuna sem rennur frá ostagerðinni sem verðmætt hráefni og bagalegt að það dragist að þetta hráefni skili sér í framleiðsluna á Sauðárkróki.“