Lukaku hetjan er United komst í fjórða sætið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Lukaku fagnaði síðara markinu vel.
Lukaku fagnaði síðara markinu vel. vísir/getty
Manchester United komast í fjórða sætið í ensku úrvalsdeildinni er liðið vann 3-2 sigur á Southampton á heimavelli í dag. Sigurmarkið skoraði Romelu Lukaku á síðustu mínútu venjulegs leiktíma.

United fékk tækifæri í upphafi leiksins til þess að komast yfir en það voru hins vegar gestirnir frá Southampton sem skoruðu fysrta markið á 26. mínútu leiksins.

Hægri bakvörðurinn Yann Valery fékk þá boltann rétt fyrir utan vítateig United og ákvað að þruma boltanum á markið. Það endaði vel því boltinn söng í netinu og Southampton komið í 1-0.





Heimamenn jöfnuðu á áttundu mínútu síðari hálfleiks. Andreas Pereira fékk þá boltann fyrir utan teig Southampton frá varamanninum Diego Dalot og þrumaði boltanum í netið með glæsilegu skoti.

Eftir klukkutíma leik komst United svo í 2-1. Romelu Lukaku lagði þá boltann laglega í fjærhornið með hægri fæti eftir sendingu frá Pereira. Stundarfjórðungur liðinn af síðari hálfleik og United komið yfir.





Ballið var ekki búið og það var eitt glæsimark eftir. Er stundarfjórðungur var eftir af leiknum fékk Southampton aukaspyrnu fyrir utan teiginn. Hana tók James Ward Prowse, skrúfaði boltann yfir vegg United og í netið. Frábær aukaspyrna.

United reyndi að sækja og hirða öll þrjú stigin. Það bar árangur á síðustu mínútu venjulegs leiktíma. Boltinn féll fyrir Lukaku rétt fyrir utan vítateig Southampton, hann mundaði hægri fótinn og náði að setja hann fallega í hornið.

Á fjórðu mínútu uppbótartíma fékk United vítaspyrnu eftir að Stuart Armstrong braut á Marcus Rashford. Á punktinn fór Paul Pogba en Angus Gunn gerði sér lítið fyrir og varði frá honum. Lokatölur 3-2.

Mikilvægur 3-2 sigur United sem er komið upp í fjórða sætið, upp fyrir Arsenal, en Southampton er í sautjánda sætinu og er tveimur stigum frá fallsæti.







Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira