Vítaspyrnumarkvarsla Lloris bjargaði stigi fyrir Tottenham

Anton Ingi Leifsson skrifar
Leikmenn Tottenham fagna Lloris.
Leikmenn Tottenham fagna Lloris. vísir/getty
Tottenham og Arsenal skildu jöfn, 1-1, er liðin mættust á Wembley í dag en Tottenham heldur því áfram Arsenal fjórum stigum frá sér.

Arsenal fékk fyrsta færið strax á annarri mínútu en skot Frakkans Alexandre Lacazette skóflaði boltanum framhjá úr góðu færi. Sofandi háttur í vörn Tottenham.

Arsenal komst svo yfir á sextándu mínútu. Davidson Sanchez gerði mistök og missti af boltanum við miðlínuna, Lacazette var fljótur til og sendi Aaron Ramsey einan í gegn. Hann lék á Hugo Lloris og kom boltanum í netið.





Eftir að líða fór á hálfleikinn fór Tottenham aðeins að ógna og Toby Alderwereild fékk meðal annars gott færi en skaut framhjá. Staðan 1-0 fyrir Arsenal í hálfleik.

Það gekk illa hjá Tottenham að ógna marki Arsenal og fengu þeir ekki mörg færi en þeir fengu hins vegar vítaspyrnu á 74. mínútu. Eftir aukaspyrnu var ýtt í bakið á Harry Kane og dæmt víti.

Endursýning sýndi að Kane var rangstæður er spyrnan var tekinn en vítið stóð. Á punktinn fór Kane sjálfur og skoraði sitt fimmtánda mark í ensku úrvalsdeildinni þetta tímabilið.





Fjörinu var ekki lokið. Er ein mínúta var eftir af venjulegum leiktíma fékk Arsenal vítaspyrnu. Davidson Sanchez var dæmdur brotlegur fyrir brot á Aubameyang. Aubameyang fór sjálfur á punktinn en lét Hugo Lloris verja frá sér. Hörmuleg spyrna.

Lucas Torreira fékk svo rautt spjald í uppbótartíma fyrir groddaralega tæklingu en fleiri urðu mörkin ekki. Tottenham er áfram í þriðja sætinu með 61 stig en Arsenal sæti neðar með fjórum stigum minna.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira